14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1178)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Sveinbjörn Högnason:

Það var aðeins vegna ummæla hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv., að ég vildi taka það fram, að ég veit ekki til þess, að í því kjördæmi, sem ég var frambjóðandi í, hafi farið fram kosning um það, á hvaða grundvelli skuli kosið til Alþ. Ég vil taka það fram gagnvart því, sem hv. 4. þm. Reykv. hefir sagt, að kosningin hafi skorið úr um það, hverjir vilji breyta kjördæmaskipuninni, að kosningin í Rangárvallasýslu hefir alls ekki skorið úr um þetta. Frambjóðandinn utan flokka lýsti því yfir, að hann væri með Framsókn í kjördæmaskipunarmálinu, og báðir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins lýstu því yfir, að málið væri ekki á dagskrá, og nú heyri ég, að svo hefir verið um frambjóðendur í fleiri kjördæmum. Það er því alrangt, að fyrir liggi úrskurður hjá þjóðinni um það, hvort menn vilja breytingu á kjördæmaskipuninni, og því síður breytingu á ákveðnum grundvelli, eins og hv. 4. þm. Reykv. vildi vera láta.