14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (1184)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 4. þm. Reykv. hélt því fram, að þeir menn, sem staðið hefðu að síðustu kosningum og ekki vitað, að kosið var um kjördæmaskipunina, hafi verið pólitískt blindir. Eftir því, sem ég veit bezt, held ég þá, að þetta eigi einna helzt við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, a. m. k. í Rangárvallasýslu, því þeir vildu hvergi við það kannast, að um það væri kosið, og fengu þannig marga kjósendur til að loka augunum um það. Hv. þm. sagðist hafa frétt það eitt af minni kosningabaráttu, að ég gengi berserksgang móti Reykjavíkurvaldinu. Ég ætla þá að segja honum í staðinn, að það eina, sem ég frétti frá honum í sambandi við þessar kosningar, var, að hann gengi berserksgang fyrir þetta Reykjavíkurvald og ætlaðist til, að 11 menn sætu framvegis hér á Alþingi sem fulltrúar Reykjavíkur. Þetta líkaði mönnum í Rangárvallasýslu yfirleitt illa, enda neituðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins þar, að flokkurinn hefði neina ákvörðun tekið í þessu kjördæmaskipunarmáli. Foringi íhaldsmanna tók þó greinilega afstöðu í því máli 1924, og nú trúði fjöldinn allur af kjósendum Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði sömu stefnu eins og Íhaldsflokkurinn 1924. Og frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins gerðu ekkert til þess að leiðrétta þetta, sem var auðvitað skynsamlega gert af þeim, því að það hefir aflað þeim fjölda atkv., sem annars hefðu aldrei fallið nálægt þeim flokki.

Hv. 3. þm. Reykv. fannst ég hafa gengið berserksgang móti breyt. á núverandi kjördæmaskipun. Þetta er líklega orsökin til berserksgangs hans gagnvart kosningu minni og þess, að hann hefir látið málgagn sitt tyggja það upp aftur og aftur, að ég væri jafnaðarmaður, eða jafnvel kommúnisti. Mér finnst það satt að segja undarleg baráttuaðferð, að þykjast ná sér bezt niðri á andstæðing sínum með því að bendla hann við sinn eiginn flokk, eins og hv. 3. þm. Reykv. og málgagn hans hefir þrásinnis gert með mig. Helzt lítur út fyrir, að hv. 3. þm. Reykv. finnist, að bezta ráðið til þess að fæla kjósendur frá mér væri það, að gefa í skyn, að ég væri eitthvað skyldur honum andlega. — Mér finnst, að bæði hv. 3. og 9,. þm. Reykv. hafi verið að gefa í skyn eitthvert andlegt sálufélag mitt við hvorn þeirra fyrir sig, en ég ætla, til þess að taka af allan misskilning, að lýsa yfir, að ég hefi aldrei, hvorki fyrr né síðar, átt sálufélag við hvorugan þessara hv. þm., enda hafa þeir engar tilraunir gert til þess að finna orðum sínum stað til að sanna það, og ég vona, að ég sleppi í lengstu lög frá slíkum andlegum félagsskap. — En ég held, að það sæti illa á hv. 4. þm. Reykv. að vera að tala um skoðanaskipti. Ég þori að fullyrða, að síðan hann komst hingað inn í hið háa Alþingi, hefir hann ekki gengið undir færri en 4 flokksnöfnum, og er það hreint ekki svo lítið.