14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (1187)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Magnús Jónsson:

Það er nú eiginlega ekki mikil ástæða fyrir mig að svara hæstv. forsrh., því hann er nú kominn á harðasta undanhald í þessu máli. Hann sagði, að þetta hefði að vísu dregizt inn í kosningarnar, en kjósendurnir hefðu ekki kosið um það. (Forsrh.: Okkar kjósendur kusu um það, en ykkar ekki). Við hverja voru þeir þá að tala, ef ekki við kjósendurna, og hverjir voru að kjósa, ef ekki kjósendur?

Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Rang., að það var barizt hart um þetta mál. Það er vafasamt, hvort stjórnarfl. núverandi getur nokkurn tíma fengið fleiri með sínum málstað en nú með því að koma með skyndiáhlaup. Hæstv. forsrh. sagði, að við hefðum neitað að athuga málið, heldur viljað pressa það fram í skyndi. Ég veit yfirleitt ekki, hvernig hæstv. forsrh. hugsar í þessu máli, þar sem við í vetur töluðum um að nema burt úr stjórnarskránni þann þröskuld, sem var fyrir breytingunum. Þetta segir hann að þýði, að við hefðum ekki viljað athuga málið, heldur pressa það fram í skyndi. Í vetur hefðum við viljað ganga inn á milliþingan. til að athuga málið.

Þá var hæstv. forsrh. að dylgja með það, að hv. 2. þm. Skagf. hefði sagt annað norður í Skagafirði. Þar hefði hann ekki viljað draga úr valdi bændanna. Ég drep á þetta, því það virðist sem menn viti það ekki almennt, að ranglæti kjördæmaskipunarinnar verður ekki síður komizt framhjá, þó að teknir séu sér kaupstaðir og sér sveitir. Ranglætið kemur ekki hvað sízt fram í sveitunum sjálfum. Ef kjósendur í kaupstöðum eru teknir sem flokkur frá, og svo þingmannatalan sem flokkur, þá kemur það í ljós, að Sjálfstæðisfl. er ennþá afskiptari í sveitum en kaupstöðum. Ég get því alveg skilið aðstöðu hv. 2. þm. Skagf., þegar hann telur breyt. á kjördæmaskipuninni alveg eins nauðsynlega, þó hann sé ekki að tala um að miðla neinu valdi milli sveita og kaupstaða. — Ég sé, að hv. 2. þm. Rang. hlær að þessu. Ég skal reyna að útlista það fyrir honum í 2–3 klst. í næði, en fyrr skilur hann það ekki. (MG: Hann skilur það ekki fyrir því).

Hv. þm. Mýr. kom með sniðuga skýringu, þar sem hann vildi sýna fram á, að ef kosningarnar hefðu ekki sýnt rétta niðurstöðu, þá væri fylgi, sem kjördæmaskipunarmálið hefði, minna í landinu en kosningarnar hefðu sýnt, því kjósendur Framsóknarfl. hefðu kosið um það, en kjósendur Sjálfstæðisflokksins ekki. Það er ekki annað en gaman að búa til og hugsa sér svona skrítnar skýringar.

Hv. þm. V.-Húnv. og hv. 1. þm. Eyf. og ýmsir fleiri hafa haldið því fram, að kjördæmaskipuninni verði að breyta. Maður getur hugsað, að þeir hafi með þessu dregið með sér heilan hóp manna, sem hafa haldið, að þeir meintu eitthvað með þessu, sem þeir voru að segja, og svo náttúrlega það, sem er aðalatriðið, hvernig málið var borið fram. Það var borið fram algerlega órannsakað sem skyndiáhlaup, eins og bomba, sem var sprengd fyrir kosningarnar, til þess að hræða menn með hvellinum. Ég er sannfærður um það, að stjórnarfl. fær aldrei eins marga með sínum afturhaldsmálstað og að þessu sinni, eftir að búið er að útskýra málið.

Hæstv. forsrh. virðist vera farinn að trúa þessari skröksögu sinni, að við viljum koma á 11 þm. í Reykjavík. Sagan hefir sýnilega verið símuð út um allt land. Það væri gaman að rannsaka það, hvort þessi saga hefði ekki heyrzt í öllum kjördæmum, að ég hafi lýst því yfir á fundi, að samkomulag hafi náðst um það, að Reykjavík ætti að fá 11 þm. Það voru 5–6 þús. manns vitni að því, hvað ég sagði, og ætti því að vera hægt að hrekja svona sögu. Ég býst við því, að flugufóturinn sé sá, að þegar menn lögðu áherzlu á, að mig mætti ekki kjósa, því að baráttan stæði um mig og Sigurjón Ólafsson, sagði ég, að ég byggist við að fella Sigurjón í þetta skipti, en mér fyndist ekki ósanngjarnt, að Reykvíkingar gætu komið okkur báðum að. Þetta er allt og sumt, sem ég sagði. Þetta er gott dæmi upp á kosningaaðferðir stjórnarfl., að síma uppspunna lygasögu út um allt land. — Hv. 1. þm. Rang. hefir lýst því yfir, að það sé ósatt, sem sagt var um hans aðstöðu þar, og hann sýndi fram á, að utanflokkaframbjóðandinn hafi lýst sig hlynntan breyt. á kjördæmaskipuninni. En þar með fellur röksemd hæstv. forsrh., að utanflokksmenn megi ekki telja með, því að þeir hafi ekki verið með þessu.