14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (1189)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Lárus Helgason:

Ég skal lofa því að lengja ekki umr. mikið. Mig furðar á því, hve umr. um þetta mál verða langar. Það varð að samkomulagi að skipta n. til að vinna að þessu máli, og svo er farið að rífast nú á þessum vettvangi. En ég vildi aðeins henda á það, að það er ákaflega rangt, þegar verið er að slá því fram, að síðustu kosningar hafi sýnt, að aðeins 1/3 af landsmönnum væri ánægður með kjördæmaskipunina eins og hún er. Þetta er rangt, því sannleikurinn er, eins og haldið hefir verið fram af ýmsum hér í d., að margir af þeim mönnum, sem kusu sjálfstæðismenn úti um land, vildu ekki trúa því, að það stæði til að gerbreyta kjördæmaskipuninni, og kusu í því trausti sjálfstæðismenn. Ég get talið marga menn, sem kusu Sjálfstæðisfl. af því að þeir trúðu ekki, að hér væri alvara á ferðum.

Hv. 4. þm. Reykv. heldur því fram, að það muni aldrei fást eins mörg atkv. eins og nú við síðustu kosningar í þessu máli, að Framsókn fái aldrei eins mörg atkv.

Hvað veit hann um þetta? Þetta er eins og annað hjá þessum hv. þm. alveg út í loftið. Það má segja um þetta eins og sagt er: svo mæla börn sem vilja. Hann vildi víst gjarnan í framtíðinni, þegar um er að ræða mál, sem honum væri í vil, að það gengi betur en síðustu kosninga: fyrir sjálfstæðismönnum. Það er vitanlegt, að úti um allt land er það svo ríkt í fólkinu að gerbreyta ekki kjördæmaskipuninni, að það myndi verða uppi fótur og fit, ef að því kæmi. Hitt er annað mál, að það er sjálfsagt að taka tillit til þeirra, sem vilja athuga þetta mál, ekki af því, að þeir telji það neina nauðsyn í sjálfu sér, heldur til að koma á samkomulagi og stilla til friðar í landinu. Það er þetta, sem ýmsir til og frá um landið hafa gengið inn á, og það er þetta, sem gæti orðið valdandi einhverjum breytingum á kjördæmaskipunarmálinu.