14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (1190)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Bernharð Stefánsson:

Það hafa 2 hv. þm. getið þess, að ég hafi látið þá skoðun í ljós, að ég fylgdi breytingum á kjördæmaskipuninni. Þetta er að nokkru leyti rétt. Á þeim framboðsfundum, sem ég var á í vor, tók ég fram, að frá mínu sjónarmiði gætu breytingar komið til mála í þá átt, að flokkarnir fengju þm. meir eftir tölu kjósenda en nú væri, en þó þannig, að héruðin héldu sjálfstæði sínu sem sérstök kjördæmi.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði í einni ræðu sinni áðan, að framsóknarmenn vildu láta sína menn hafa meiri kosningarrétt en kjósendur annara flokka. Ég kannast ekki við það, að hafa heyrt nokkurn framsóknarmann halda þessu fram; jafnvel þó einhverjir framsóknarmenn kynnu að vilja halda kjördæmaskipuninni óbreyttri, þá er það allt annað mál. Hvaða sönnun er fyrir því þegar til lengdar lætur, að það verði framsóknarmenn, sem græða á því? Mér finnst þetta bera vott um, að hann sé algerlega vonlaus um, að hans flokkur geti nokkurntíma unnið á úti um sveitir landsins. Mér virðist það geta komið fyrir jafnvel með núverandi fyrirkomulagi, að það verði Framsókn, sem verður fyrir ranglætinu. (MJ: Já, náttúrlega, en hvers vegna eru þeir þá á móti breyt.?). Framsóknarmenn eru ekki á móti öllum breytingum í þessu efni, þó þeir vilji halda rétti hinna einstöku héraða til að hafa fulltrúa á þingi; því hefir verið margsinnis lýst yfir, að þess vegna var till. borin fram.

Annars er Framsókn á móti því að flaustra þessu af. Sjálfstæðisfl. leggur fram frv. um breyt. á stjórnarskránni, þar sem tekið er fram, að hver flokkur eigi að fá þm. eftir kjósendatölunni. Setjum svo, að þetta verði samþ. á sumarþinginu og eftir kosningar á vetrarþinginn, — á þá samkv. frv. að kjósa á ný eftir þessum reglum? Hvaða sönnun er fyrir því, að þessu væri hægt að fullnægja með kosningalögum á einu þingi? Hvaða sönnun er fyrir því, að þingið yrði sammála um það form, sem fyrir þessu ætti að vera? Það er ekki nóg að segja, að hver flokkur eigi að hafa þm. eftir kjósendatölu; það verður einnig að ákveða, á hvern hátt slíkt verði framkvæmt. En mér sýnist, eftir því sem fram hefir komið, að skoðanirnar á því séu nokkuð sundurleitar, jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins. Alþýðufl. einn hefir gert ákveðna till. um þetta. Hann vill, eins og kunnugt er, að landið verði eitt kjördæmi með hlutfallskosningu. Þess vegna virðist fullkomin þörf á því að skipa þessa n., og það er ekki hægt að gera annað í málinu á þessu þingi en að skipa n., því n. þarf náttúrlega að byrja á því að stinga upp á breyt. á stjórnarskránni, sem nauðsynlegar eru til að koma þeirri kjördæmaskipun á, sem hún gerir till. um. Samþykkt frv. sjálfstæðism. gæti leitt til stjórnarskrárbrota, ef þingið gæti ekki sett kosningalögin í það form, sem stjórnarskráin þó mundi áskilja. — Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um skröksögur, sem gengju um landið, að samkomulag hefði verið gert um það, að Reykvíkingar fengju 11 þm. Ég heyrði ekkert um þetta í mínu kjördæmi. En á síðasta þingi lá hér fyrir frv. um það, að Rvík fengi 9 þm. (HG: Og var ekkert ljótt við það, finnst mér.), sem hv. 4. þm. Reykv. var flutningsmaður að.