14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (1193)

13. mál, milliþinganefnd um kjördæmaskipun

Bernharð Stefánsson:

Það er áreiðanlega hugsanlegt, að þó að stjskrfrv. Sjálfstæðisflokksins hefði verið samþ., þá hefði ekki verið hægt að framkvæma það. Á þinginu eru þrír stjórnmálaflokkar, og það er þannig skipað, að enginn einn flokkur getur komið sínum málum í gegnum þingið. Nú gæti vel farið svo, að hver af þessum stjórnmálaflokkum vildi framkvæma þetta á sinn sérstaka hátt. Alþýðuflokkurinn hefir lýst því yfir, að hann vilji hafa landið allt eitt kjördæmi. Við skulum segja, að Sjálfstæðisflokkurinn vildi stór kjördæmi með hlutfallskosningum og Framsóknarflokkurinn vildi halda núverandi kjördæmaskipun, en hafa uppbótarþingsæti; og ef enginn vildi láta undan eða slá af, þá gæti allt strandað. Þá væri búið að setja í stjskr. ákvæði um, að allir flokkar skyldu hafa þingsæti eftir atkvæðamagni, en ekki væri hægt að framkvæma það. Þess vegna þarf að gefa í sjálfri stjskr. grundvöll fyrir því, hvernig þingkosningum skuli hagað, enda er tekið fram í núgildandi stjskr. í aðaldráttum, hvernig þessu skuli hagað.