17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 4. þm. Reykv. hefir nú sótt nokkuð í sig veðrið og haldið hér allskemmtilega ræðu, sem ég hefi fengið ástæðu til að víkja að nokkrum orðum. Hann gat um það, að engin skýrsla hefði verið gefin um fjárhagsástand liðins árs, en hún var gefin á vetrarþinginu og það myndarlegar en nokkru sinni fyrr. Hv. þm. sagði, að þessari skýrslu hefði verið allábótavant og þurfi leiðréttingar, en í næstu setningu segir hann, að ekki sé von, að nokkur framsóknarþingmaður fáist til að leiðrétta hana. Hvernig í ósköpunum getur hann þá ætlazt til þess af mér, að ég fari að gera það? (MJ: Þetta er að fara með vaðal. Eru skilningarvitin farin að detta af hæstv. ráðh.?).

Þá sagði hv. þm., að Framsóknarflokkurinn væri stéttarflokkur, þ. e. bændaflokkur eingöngu, en þetta lætur skemmtilega í eyrum þeirra manna, sem nokkuð hafa fylgzt með í stjórnmálum síðustu ár, því að jafnan undanfarið hefir það kveðið við í blöðum andstöðuflokksins, að Framsóknarflokkurinn væri allt of hlynntur socialistum, og þar af leiðandi ekki hreinn bændaflokkur, en þetta sýnir, að þau blöð og þeir menn, sem þessu halda fram, fara úr einum öfgunum í aðrar. Þriðja atriðið var þó skemmtilegast. Hv. þm. réðist á útvarpið, ekki þó á útvarpsstj., heldur á útvarpstækin, fyrir það, að þau hefðu bilað. Það var engu líkara en að hann vildi segja, að rafmagnið hefði hlaupið í Framsóknarflokkinn honum til liðsinnis.