25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (1201)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Flm. (Jón Þorláksson):

Það er öllum kunnugt, að Alþingi hefir áður látið sig varða Grænlandsmál. M. a. hefir það kosið nefnd, sem hafði það ætlunarverk sérstaklega að sinna þeim málum. Það hefir að vísu verið fremur sjaldan, sem þau hefir borið á góma hér, en nú eru að gerast þeir viðburðir viðvíkjandi Grænlandi, að mér hefir fundizt, að Alþingi gæti ekki leitt það mál hjá sér án þess að stofna réttindum og hagsmunum Íslands á þessu sviði í nokkra hættu.

Ég þarf ekki að rifja það upp, á hverju það byggist almennt, að Íslendingar láta sig varða um Grænland og telja sig eiga rétt til þess og vænta, að þau réttindi gætu orðið Íslandi til hagsmuna á ókomnum tíma. Ég vil aðeins minna á, að sú hvítra manna byggð, sem verið hefir á Grænlandi, var héðan komin og stóð í nánustu sambandi við okkar þjóðfélag af öllum þjóðfélögum um nokkrar aldir.

Ennfremur vil ég minna á það, að Grænland var eitt af þeim þremur löndum úti í Atlantshafi, sem töldust skattlönd Noregskonungs um nokkurt skeið án þess að tilheyra Noregi sjálfum. Þessi lönd fylgdu með þegar Noregur sameinaðist Danmörku, en urðu svo viðskila við Noreg með friðnum í Kiel 1814. Segja má, að þau afskipti og yfirráð hvítra manna, sem framkvæmd hafa verið á Grænlandi nú á síðari öldum, hafi verið framkvæmd af því ríkjasambandi, sem Ísland taldist til og var einn hluti af.

Nú er Ísland orðið sjálfstætt ríki fyrir nokkrum árum, eins og kunnugt er, með góðu samþykki Danmerkur. En þegar sáttmálinn 1918 var gerður, þá var ekkert sérstakt ákvæði sett um það, hvernig fara skyldi um rétt Íslands til Grænlands, og stendur það að mínu viti við það sama, sem var áður en sambandslögin frá 1918 voru sett. Ég tel þannig, að auk þess réttar, sem Íslendingar kunna að eiga vegna sögulegrar aðstöðu í fortíðinni, þá höfum við óhrekjanlegan nútímarétt til Grænlands við hlið Dana, vegna sambandsins við Dani, eða hverju nafni sem menn nú vilja nefna þetta. Nú, þó að það liggi utan við þetta mál, þá vil ég aðeins skjóta því hér inn í, að ég hefi ávallt hugsað mér, að þegar endanleg málalok verða um sambandið milli Íslendinga og Dana, þegar sambandslögin falla úr gildi, þá sé sjálfsagt, að samningar komi til milli þessara ríkja um afstöðu hvors fyrir sig til Grænlands. Ég hefi fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að vænta annars en að Íslendingar geti í þessu efni haft góða aðstöðu til þess að halda öllum sínum rétti.

Fyrir utan hin sögulegu rök, þá kemur það hér til, að við erum næstu nágrannar Grænlendinga að telja má af þeim þjóðlöndum, sem hvítir menn byggja. Við getum ekki af þeirri ástæðu látið okkur standa á sama, hvernig fer um Grænland. Það er að vísu svo, að ennþá eru Íslendingar ekki fleiri en svo, að landkostir eru nógir heima fyrir til lands og sjávar handa þeim íbúafjölda, sem hér er, svo að við munum ekki á síðari árum hafa sérlega tilhneigingu til þess að leita atvinnurekstrar út fyrri landið sjálft. En enginn veit, hver breyting kann að verða á þessu, og þá er Grænland, eins og ég gat um, næst okkur af þeim löndum, sem getur verið um að ræða að Íslendingar sæki atvinnu til. Það er þess vegna eðlileg ósk af Íslendinga hálfu að geyma og varðveita allan þann rétt, sem Ísland kann að eiga til Grænlands, til þess tíma, þegar íslenzka þjóðin kynni að þurfa að taka lands- eða sjávargæði þar til notkunar handa sér.

Nú veit ég það, að margir hafa gert og gera máske ennþá lítið úr því, að mikinn feng eða hagnað muni vera hægt að sækja til Grænlands, en ég vil vísa þeim mönnum til sögunnar um það, að það er ekki rétt að óreyndu að gera lítið úr þeim gæðum, sem í náttúrunnar skauti kunna að vera til, þó að um norðlæg lönd sé að ræða. Sagan sýnir, að þeir, sem sunnar búa, hafa ávallt gert sér þær hugmyndir um norðuráttina, að þangað væri lítið gæði að sækja, en eftir því sem mannsandanum hefir tekizt að gera sér náttúruna meira og meira undirgefna, þá hefir það komið í ljós, að náttúrugæðin eru miklu meiri í hinum norðlægari löndum en menn höfðu gert sér hugmynd um, enda hefir það verið svo, að þungamiðja menningarinnar hefir alltaf verið á norðurleið allan þann tíma, sem sögur fara af, frá ströndum Miðjarðarhafslandanna og norður á Bretland, sem þótti óbyggilegur útkjálki, þegar menning sú hófst, sem sögur fara af suður í löndum.

Ég vil hér einnig nefna eitt dæmi úr sögunni, sem ætti að vara menn við að gera lítið úr landkostum hinna norðlægustu landa. Þegar Bandaríkjamenn keyptu Alaska af Rússum fyrir fáeinar millj. dollara, þótti mörgum það heimska mikil, því að þá hugsuðu menn, að í þessu landi væri engin gæði að fá. En eins og menn kannast við, þá komu þar í ljós skömmu síðar mestu gullnámur veraldarinnar, og auk þess geymir land þetta mörg önnur þau landsgæði, sem menn höfðu þá enga hugmynd um. Alveg eins veit enginn ennþá, hvaða gagn þeim kann að verða af réttindum á Grænlandi, sem á ókomnum tímum eiga þar landsréttindi.

Það, sem nú gerist í þessu máli, er það, að Norðmenn hafa gert tilraunir til að kasta eign sinni á töluvert svæði norðaustan til á Grænlandi, og út af því hefir lent í deilu við stjórn Danmerkur, og Danir hafa skotið málinu til alþjóðadómstólsins í Haag. Nú þykir mér hætt við því, að ef Íslendingar láta þessa deilu afskiptalausa, verði það á sínum tíma lagt svo út, sem Íslendingar teldu ekki nú, að þeir hefðu hagsmuna að gæta á þessu svæði. Ég tel þess vegna, að afskiptaleysi íslenzkra stjórnarvalda kynni að spilla málstað okkar á sínum tíma, þegar gera á upp samningana við Dani um það, hvaða rétt Íslendingar hafi til Grænlands.

Þetta er höfuðástæðan til þessarar till. nú, en auk þess álít ég, að það sé í miklu samræmi við íslenzka hagsmuni að fylgja þeirri skoðun, sem uppi hefir verið í Danmörku og Danir hafa fengið viðurkenningu allmargra ríkja fyrir, að Grænland sé ein heild, sem eigi að fylgjast að. Með því að styðja þessa skoðun, styðjum við jafnframt réttarkröfu Íslands til Grænlands í heild. En gangi nokkur hluti Grænlands undan til annara ríkja, þá megum við vita það, að réttur okkar til þess hluta landsins yrði þar með ekki annar eða ríkari en sá, sem hver önnur þjóð gæti gert gildandi, og ekki sá sami sem við teljum okkur nú hafa til landsins í heild.

Það er þess vegna í fyrsta lagi tilætlun mín með þessari þáltill., að íslenzka ríkisstj. taki eftir þessari deilu og styðji þá skoðun, að Grænland sé ein heild, sem ekki beri að skipta í sundur, og að Íslendingar telji sig hafa rétt umfram aðrar þjóðir til landsnytja á þessu landi.

Hér við vil ég þó bæta því, að jafnvel þó að það kunni að verða ofan á, að Grænland verði ekki af alþjóðaréttinum skoðað sem ein heild og að skipti á því gætu því komið til mála, þá er þó sérstök ástæða af hálfu Íslendinga að mótmæla því, að yfirráðaréttur Norðmanna verði viðurkenndur á þeim hluta landsins, sem þeir nú hafa kastað eign sinni á.

Ég vil leiða athygli stj. og þm. að því, að í kringum Norður-Íshafið liggja miklir landflákar, sem skiptast milli fárra ríkja. Ég vil leyfa mér að telja upp þau ríki, sem hér um ræðir: 1. Bretaveldi, þar sem Kanada á land, 2. Bandaríkin, sem eiga Alaska, 3. hið mikla rússneska ríki, sem á alla Síberíu og hinar rússnesku strendur, 4. Finnland, sem á örlitla sneið að hafinu, 6. Noregur og 7. Ísland, og þar við bætist svo Grænland. Hefir Norður-Íshafið verið nefnt Miðjarðarhaf norðurhvelsins. Í því hafi er mikið af eyjum, stærri og smærri, og sú spurning hefir komið upp, hverjir eigi tilkall til þessara eyja. Sú kenning, sem ég veit til, að helzt hefir fengið byr, er sú, að hvert hinna byggðu landa, sem liggja að Norðurhafinu, teljist eiga rétt til óbyggðra landa, er liggja í geira þeim, er lengdarbaugar marka út frá endimörkum hvers lands til pólsins. Og sú skipting, sem hefir farið fram á eyjum í Norðurhafinu, er í samræmi við þessa kenningu, ef Grænland er undanskilið. Rússland helgar sér allar eyjar, sem liggja til norðurs af Síberíu og Rússlandi, og Noregur hefir fengið viðurkennd yfirráðin yfir Svalbarða, sem liggur í geira Noregs. En nú liggur sá hluti Grænlands, sem Noregur hefir kastað eign sinni á, í geira þeim, sem tilheyrir Íslandi, því landið liggur beint í norður af ströndum Íslands. Og þó að það sé litið svo á, að Grænland sé ekki óskiptilegt land, þá álít ég, að ísl. stjórninni beri að gæta hagsmuna Íslands þannig, að ekki verði viðurkennd yfirráð neins annars ríkis yfir þeim hlutanum, sem liggur norður af Íslandi, samkv. skiptingu þeirri, sem ég nefndi áðan.

Ég hefi svo ekki meira um þetta mál að segja, en vil taka það fram, að ég álít, að ekki beri að blanda neinum andúðartilfinningum þjóða á milli inn í þetta mál. En ég tel skyldu Alþ. að gæta hagsmuna Íslands með fullri alvöru og sanngirni. Og með þessum formála óska ég eftir, að Alþ. samþ. þessa till.