25.07.1931
Sameinað þing: 4. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (1208)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Einar Arnórsson:

Hér hafa hv. þm. talað um sögulegan rétt, sem við Íslendingar hefðum til Grænlands, og það lítur svo út, sem sumir séu mjög trúaðir á það, að sá sögulegi réttur sé góður og gildur. En ég er ekki svo sannfærður um þann sögulega rétt. Og ég tel rétt, að það komi fram í Alþ., að það eru ekki allir jafntrúaðir á þann rétt. Þá verða vonbrigðin ef til vill minni.

Ef það á að halda því fram, að það út af fyrir sig gefi Íslendingum rétt til yfirráða yfir Grænlandi, að Grænland byggðist héðan, þá má með sömu röksemdafærslu halda því fram, að Noregur eigi rétt til Íslands. Það var líkt farið um byggingu á báðum stöðum. — Hingað fluttust frá Noregi margir þeir menn, sem brotið höfðu norsk lög og urðu fyrir það útlagar úr landi sínu. Þeir námu hér land í sínu eigin nafni, en ekki í nafni Noregs. Sama máli gegnir um Grænland. Fyrsti landnámsmaður Grænlands, Eiríkur rauði, var gerður útlagi héðan af Íslandi og hann nam ekki Grænland í nafni Íslands. Hann og þeir, sem með honum fóru héðan, námu landið í sínu eigin nafni, en ekki til að auka við Ísland. Þetta er engin nýjung. Þetta hafa aðrir áður sagt og fært þar rök að. Hitt er að vísu satt, að samgöngur voru meiri milli Íslands og Grænlands en annara landa, þótt samgöngur væru einnig nokkrar milli Grænlands og Noregs alla tíð fram á 14. öld. En ástæðan fyrir því er vitanlega skyldleiki landsbúanna og lega landanna. Grænlendingar virðast munu hafa gert samninga við Íslendinga um ýms atriði, en af því verður auðvitað helzt ráðið það, að Grænlendingar hafi verið sérstakt og sjálfstætt þjóðfélag.

Með því að þessi skoðun liggur fyrir á prenti í víðlesnu tímariti, svo að allir geta kynnt sér hana, þá getur það ekki talizt goðgá eða málspjöll, þótt minnzt sé á málið hér á Alþingi frá þessu sjónarmiði.

Hitt fæ ég ekki séð, að það sanni rétt okkar til Grænlands, þótt íslenzkt sauðfé sé auðveldara að ala á Grænlandi en sauðfé frá öðrum. Og þótt Íslendingar skilji öðrum betur rúnir þær, er fundizt hafa í Grænlandi, þá sannar það ekki heldur rétt okkar til landsins. Það sannar ekkert annað en það, að við skiljum öðrum betur norrænt mál og þá hluti, sem á því eru ritaðir.

Annað mál er það, hvort Íslendingar, sem að margra skoðun voru eitt sinn hluti af Danmörku, eigi ekki sameiginlegan rétt til landsins með Danmörku. Þessa kenningu þarf auðvitað líka að athuga. Um þetta atriði er ekkert í sambandslögunum frá 1918. Ef landið verður opnað dönskum ríkisborgurum, þá er það augljóst mál, samkv. 6. gr. sambandslaganna, að þá hafa íslenzkir ríkisborgarar þar sama rétt og Danir. Og mun þessa getið í aths. nefndarinnar við sambandslagafrv. Annars er ekkert sagt í því sambandi um rétt Íslendinga til Grænlands.

En þó að hluti af landinu verði kallaður eign Danmerkur, byggðin að sunnan og vestan, sem Danir raunverulega ráða yfir, þá gildir ekki hið sama um austurhlutann, sem sumir fræðimenn telja „no man's land“. Á þetta land hefir, að skoðun t. d. próf. Halfdan Koths í Oslo, enginn slegið eign sinni, og því hafa Norðmenn tekið þetta landsvæði og telja sér það heimilt. Með tilliti til þessa hluta landsins gætum við ef til vill fært okkur til nytja kenningu þá, sem hv. 1. landsk. gat um, að hvert land við Norðuríshafið ætti rétt til landtöku á geira þeim, er lægi að því. Þessi kenning kæmi okkur miklu fremur að gagni. Um það svæði, sem Norðmenn og Danir deila nú um, þýðir okkur varla að vitna til gamalla réttinda, því að menn héðan af landinu hafa ekki numið það. En þar kemur til greina lega okkar lands og hagsmunaatriðið.

Það er sjálfsagt, að athugað verði vandlega, hvaða afstöðu Ísland eigi að taka í þessu máli Danmerkur og Noregs og hvort eigi mætti vera, að hagsmunir Íslands kynnu að verða teknir þar að einhverju leyti til greina.