20.08.1931
Sameinað þing: 5. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (1217)

74. mál, gæsla hagsmuna Íslands út af Grænlandsmálum

Pétur Ottesen:

Mér þykir vænt um að heyra, að það er sami skilningurinn, sem kemur nú fram hjá hv. utanríkismálanefnd, er hún leggur til, að málið verði samþ., eins og fram hafði komið hjá mér og hv. þm. Vestm. þegar till. var til fyrri umr., nefnilega sú, að við gerum okkar kröfur, byggðar á þjóðlegum og sögulegum rétti, sem við höfum til landsins frá fornu fari.

Mér þótti einnig vænt um, að nefndin rökstuddi álit sitt með því, að það er ekki á færi annara þjóða en Íslendinga að hagnýta sér gæði lands og sjávar í Grænlandi. Þetta kom skýrt fram í ræðu hv. frsm. Ég vil því segja það, að þó telja megi, að tilefni till. sé það, er Norðmenn nú fyrir skemmstu gerðu tilkall til hluta af Grænlandi, þá megi og hitt til sannsvegar færa, að við höfum notað þetta tilefni til þess að setja mál okkar fyrir alþjóðadómstól og krefjast réttar okkar í þessu efni. Að því hefði hlotið að reka fyrr eða seinna, að við hefðum gert kröfu til Grænlands. alls, og hefði þá orðið að leggja málið fyrir alþjóðadómstól.