15.08.1931
Neðri deild: 30. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (1232)

180. mál, athugasemdir yfirskoðunarmanna landsreikningsins 1929

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég hefi borið fram brtt. við till. fjhn. á þskj. 298. Þær breyt., sem ég legg til, að séu gerðar á till. n., eru ekki efnislegar, heldur formlegar.

Fyrri till. mín gengur út á það, að flokkaðar verði skuldir ríkisins, þannig, að í sérstökum lið komi skuldir, sem stofnaðar hafa verið vegna þarfa ríkisrekstrarins og hvíla á ríkissjóði um greiðslu afborgana og vaxta, og svo í öðrum lið skuldir, sem stofnaðar hafa verið vegna sjálfstæðra stofnana. Þeim vil ég aftur skipta í tvo flokka þannig, að sér verði taldar skuldir, sem ætla má, að ríkissjóður verði að annast greiðslur af að einhverju eða öllu leyti, og svo hinar, sem stofnanirnar annast allar greiðslur af.

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, eru till. hv. n. í 4 stafliðum, en nú virðist mér, að d-liðurinn geti ekki heyrt undir yfirskrift fyrstu till., og því hefi ég dregið hann út úr og gert hann að sjálfstæðri till., sem er II. till. á þskj. 298. Þetta álít ég, að hafi einnig vakað fyrir hv. n., en álít, að í mínum till. komi þetta greinilegar fram. Mér er þetta í sjálfu sér ekkert kappsmál, en ég tel, að betur fari á því, að flokkunin verði gerð eftir skyldleika skuldanna, enda geta þær alltaf færzt á milli flokka.

Um þetta ætla ég svo ekki að fjölyrða frekara, en langaði til að víkja nokkrum orðum að till. hv. 2. þm. Reykv. (EA) á þskj. 266. Ég hefi ekki heyrt hv. þm. skýra hana, en vænti þess hinsvegar, að hann geri það við þessa umr. Mér skilst, að hún geti alls ekki heyrt undir fyrirsögn till. til þál. út af aths. yfirskoðunarmanna landsreikningsins fyrir árið 1929, en máske skýrir hann þetta nánar fyrir hv. deild.