03.08.1931
Neðri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1252)

40. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Sjútvn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og orðið sammála um að leggja til, að það verði samþ. með breyt. Í frv. er gert ráð fyrir, að síldartollur sé færður úr 1.50 kr. niður í 0.75 kr. N. hefir ekki orðið sammála um að ganga svo langt, og varð það að samkomulagi að leggja til, að tollurinn yrði færður úr 1.50 kr. niður í 1.00 kr. Okkur flm. í sjútvn. þótti skynsamlegt að slá af þeim kröfum, að tollurinn yrði færður niður í 0.75 kr. Okkur fannst það svo þýðingarmikið atriði, ef hægt væri að fá endurgreiddan toll af sykri og kryddi, að við vildum ekki kljúfa n. á þessu. Eins og nú horfir eru líkur til, að síldarútvegurinn verði að draga saman seglin á þessu ári meira en áður hefir verið. Í fyrrasumar var ca. ¼ af síldinni sérverkaður, en líkur eru til, að sú tegund síldar verði meira seld í framtíðinni en nú er. Fyrir krydduðu síldina fæst nokkuð hærra verð en fyrir aðra síld, og minni hætta er á því, að hún skemmist. Markaður fyrir kryddaða síld er líka miklu víðar. Að þessu athuguðu er það ljóst, að nauðsyn er að leggja áherzlu á að sérverka síld meira en hefir verið gert. Ég vil leggja áherzlu á, að síldarútveginum er mjög mikið hagsmunaatriði að fá þennan toll endurgreiddan, og frá sanngirnissjónarmiði verður tæplega á móti því mælt, að það sé rétt. Það er engin ástæða til, að ríkissjóður taki toll af þessum vörum, sem svo eru jafnóðum fluttar út aftur. Það getur mikið oltið á því í framtíðinni, hvort tollur er endurgreiddur eða ekki, því hann nemur nú á 2. kr. á tunnu. Þótt það sé ekki mikil upphæð sem stendur, þá getur það munað miklu, ef síldarmagnið tvöfaldast eða þrefaldast. Ég vona, að hv. dm. sé ljóst, hve mikil nauðsyn þetta er fyrir sjávarútveginn og greiði þessu frv. atkv. sitt.