04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1932

Björn Kristjánsson:

Ég á hér örfáar brtt., sem ég vildi gera nokkra grein fyrir, og verður þá fyrst fyrir mér brtt. XXIII. Hún fer fram á, að varið verði 2000 kr. til kaupa á vitavarðarbústað á Rifi á Melrakkasléttu.

Þetta mál horfir þannig við, að vitavörðurinn, sem þar hefir búið, var fyrir nokkru neyddur til að byggja sér íbúðarhús, en áður hafði hann búið í torfbæ, sem var orðinn svo lélegur, að hann var kominn að falli og lífshætta að búa í honum öllu lengur. Því miður ráðgaðist hann ekki við vitamálastjóra áður en hann réðist í verk þetta, en taldi það hinsvegar víst, að vitamálastjórnin mundi kaupa húsið, er það væri fullgert. En er til vitamálastjóra kom, kvað hann sig vanta heimild til þess, nema fé fengist veitt í fjárlögunum. Hét hann að mæla með því. Áður var þarna vel byggilegt, því að skipströnd voru þar tíð og barst þá margt á land, sem ábúanda kom að notum og hann fékk fyrir lítið verð á uppboðum. Nú er ekki um neitt slíkt að ræða, því að síðan vitinn kom, eru ströndin úr sögunni, sem betur fer. Jörð sú, er hér um ræðir, er mjög ill til ábúðar, túnið er mjög lítið, fóðrar í mesta lagi 2 kýr og í óveðrum gengur sjór yfir það og ber með sér sand og möl, og gerir með því spjöll mikil. Landið þarna í kring hefir engin ræktunarskilyrði, en fjörubeit er dágóð, hinsvegar er hagabeit mjög langsótt og slægjur einnig.

Nú standa sakir þannig, að bóndinn situr uppi með dýrt hús og mikinn skuldabagga, því að hann varð að taka bráðabirgðalán til byggingarinnar. Er ekki annað sýnilegt en að hann flosni þarna upp, nema því aðeins að ríkissjóður hlaupi undir bagga og kaupi húsið fyrir eitthvert verð. Vitamálastjóri og hreppstjóri hafa sent meðmæli sín til þingsins og liggja þau hér fyrir. Húsið er virt á 13 þús. kr., en ég geri ráð fyrir, að ábúandinn mundi sætta sig við að selja það fyrir lægra verð. Hér er farið fram á, að ákveðið verði að greiða 2000 kr. sem fyrstu afborgun til þessa manns, en fjárveiting þessi haldi síðan áfram, þar til húsið er að fullu greitt. Ef núv. vitavörður verður að yfirgefa jörðina og vitavarðarstarfið, verður ríkið annaðhvort að kaupa þetta hús, eða þá að láta reisa nýtt handa þeim vitaverði, sem þarna kann að verða, og hygg ég, að það myndi reynast öllu dýrara, enda álít ég ekki rétt, að ríkið leiki þenna mann svo grátt, þar sem hann hefir þjónað vitavarðarstarfinu vel og dyggilega um langt skeið, eins og meðmæli vitamálastjóra votta.

Mér láðist að geta þess, að ég á hér VII. brtt. á sama þskj., um endurveitingu á fé til sjúkraskýlis á Þórshöfn, og skal sú upphæð nema 8000 kr. Ég ætla ekki að þreyta hv. þdm. með langri greinargerð um þetta mál, en vil aðeins gefa stutt yfirlit um gang þess. Þetta skýli var upphaflega reist samkv. tillögum landlæknis og eftir teikningum, er hann sendi. Hafði þingið ákveðið að greiða 1/3 kostnaðarins, en hann var áætlaður 12 þús. kr., en reyndist að vera miklu meiri, eða um 40 þús. kr. Nú liðu nokkur ár og var ekkert hreyft við málinu þar til árið 1927. Þá bar fyrrv. þm. N.-Þ., Benedikt Sveinsson, fram till. þess efnis, að ríkið skyldi taka á sínar herðar ¼ kostnaðarins, og var það samþ. Árið 1928, er Magnús heitinn Kristjánsson var orðinn fjmrh., áttu þeir Benedikt Sveinsson og Guðmundur Vilhjálmsson á Lóni tal við hann um málið, og hét hann að greiða þessa upphæð inn í viðlagasjóðslán, sem skýlið hafði fengið. Vissu forráðamenn skýlisins ekki annað en að svo hefði verið gert, fyrr en seint í vetur, að þeir fengu tilkynningu um það frá Búnaðarbankanum, að lán þetta væri ógreitt og yrði það að greiðast sem skjótast ásamt vöxtum og vaxtavöxtum. Um þetta átti ég svo tal við hæstv. fjármálaráðh. og taldi hann í fyrstu, að sjálfsagt væri að greiða þetta, enda myndi ekki þörf á samþykki þingsins, en síðar hallaðist hann að því, eftir nánari athugun, að rétt myndi að láta Alþingi taka ákvörðun um málið. Ég vona, að hv. þdm. samþ. þessa brtt., því að hér er ekki um venjulegt framlag eða 1/3 kostnaðar að ræða, heldur aðeins um ¼, og má það teljast farið vægt í sakirnar.

Þá kem ég að þriðju brtt. minni, sem er sú XXVI á sama þskj., um að varið verði 4000 kr. til brimbrjótsins á Skálum. Hv. þm. Seyðf. hefir áður borið fram till., sem hefir gengið í sömu átt og þessi, en hún hefir verið hærri og ekki náð samþykki. Þessi brimbrjótur, sem hér um ræðir, var byggður árið 1930 og var verkinu stjórnað af vitamálastjóra. Kostnaður við verkið hafði verið áætlaður um 20 þús. kr., en reyndist yfir 30 þús. kr., og kom það mest til af því, að undirbúningur að verkinu hafði enginn verið gerður, þannig að þegar verkfræðingurinn, sem sendur var til að hafa umsjón með verkinu, kom norður, varð að sækja sandinn langa leið á skipum, og jók það kostnaðinn úr hófi fram. Sumpart má nú máske segja, að þetta hafi verið að kenna þeirri nefnd, sem kosin var á Skálum og átti að hafa á hendi undirbúninginn, en sumpart vitamálastjórninni, sem sendi mann norður á þeim tíma, þegar ekkert var hægt að aðhafast vegna stórhríða, og án þess að kynna sér áður, hvort nægilegur undirbúningur hefði verið gerður. Nú er svo komið, að allir þeir, sem lofað hafa fjárframlögum, hafa innt sínar greiðslur af hendi, en þessi aukakostnaður, sem á féll, lendir einvörðungu á fátækum verkamönnum, sem nú standa uppi ráðþrota og vita ekki, hvert þeir eiga að snúa sér. Verkfræðingurinn gaf þeim ávísun á framkvæmdanefndina á Skálum, en af þeim mönnum, sem hana skipuðu, er ekkert að hafa, því að þeir eru allir bláfátækir, og því hafa verkamennirnir ennþá ekkert fengið, og kemur því þessi vangreiðsla niður þar sem sízt skyldi. Í brtt. minni fer ég fram á upphæð, sem að vísu er 2 þús. kr. lægri en sú upphæð, sem verkamennirnir eiga útistandandi, en það geri ég af því, að ég er ekki vonlaus um, að hreppsnefndin og aðrir hlutaðeigendur fáist til að greiða það, sem á vantar, og verði þessu þannig kippt í lag.

Þá kem ég að till., sem ég hefi flutt ásamt hv. 4. þm. Reykv. og er sú XL. á þskj. 183. Till. fer fram á það, að Ólafi Marteinssyni verði veittar 1000 kr. til orðtöku og vísnastofnunar, en til vara 800 kr. Svo er ástatt með þenna mann, að hann lauk prófi hér við háskólann árið 1928 og fór þá utan til að halda fyrirlestra við háskólann í Osló, og ef vel gengi, hafði hann fengið fyrirheit um það, að stofnað skyldi sérstakt embætti við háskólann handa honum. Þessi maður var álitinn mjög fær og naut mikils álits hjá þeim prófessorum, sem honum höfðu kennt, en svo vildi sá sorglegi atburður til, að hann fékk heilablóðfall og lá lengi milli heims og helju erlendis. Nú er hann kominn hingað til lands og hefir náð þeim bata, að hann er að dómi prófessoranna við háskólann fær um að vinna að undirbúningi orðabókarinnar, sem lengi hefir verið í smíðum, og vísnasöfnun, en af þeim á hann þegar safn mikið. Fimm kennarar við háskólann hafa sent þinginu áskorun um að veita manni þessum fé þetta, og vona ég, að hv. þdm. bregðist vel við, þegar um slíkan gáfumann er að ræða, sem meinleg örlög hafa leikið svo grátt. Prófessorarnir gera ráð fyrir, að þessi styrkveiting muni nægja til að þessi mæti maður komist yfir erfiðleikana, en ef honum er ekki veittur þessi styrkur, er ekki útlit fyrir annað en að hann fari á sveitina, því að hann er nú blásnauður að fé.