21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (1283)

368. mál, fátækraframfærsla

Flm. (Ólafur Thors):

Ég hefi leyft mér að bera fram þáltill., svo hljóðandi: „Neðri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing frv. um þær breytingar á fátækralögunum, að greitt sé úr þeim fjárhagsvandræðum, er af því leiðir fyrir einstök hreppsfélög, hversu þunginn af fátækraframfærslunni kemur misjafnlega niður“.

Það er í rauninni kunnara en frá þurfi að segja, að hér er um mikið réttlætismál að ræða. Allir hv. þdm. vita það, að ómagaframfærslan kemur mjög ójafnt niður á hreppsfélögin. Þunginn af henni er víða svo mikill, að hreppsfélögin fá ekki undir honum risið.

Við 3. umr. fjárl. bar ég fram till. um, að ríkisstj. skyldi heimilað að veita einum hreppi í mínu kjördæmi 10 þús. kr. styrk til þess að standast kostnað af fátækraframfærslu. Ef til vill eru fjárhagsvandræði þessa hrepps gleggsta dæmið um það, hve ógurlegur þunginn af fátækraframfærslunni getur orðið. Því ekkert hefir átt annan eins þátt í fjárhagslegri eymd þessa hrepps eins og einmitt fátækraframfærslan. Í ár er hún hvorki meira né minna en 15–20 þús. kr. á þessum eina hreppi. Fjárhagur hreppsins er kunnur flestum hv. þdm. og þrengingarnar sverfa nú svo að, að við síðustu áramót skuldaði hann ca. 12 þús. kr. í vangoldnum kröfum frá öðrum hreppsfélögum, sem hafa séð um framfærslu ómaga, sem sveitfastir eru í þessum hreppi. Geti hreppurinn ekki greitt þessar kröfur á þessu ári, verða honum sendir ómagarnir heim, en þar bíður þeirra ekki annað en sultur og seyra.

Ég hefi reynt að fá upplýsingar um það hjá hagstofunni, hversu mikill þungi hvíldi á hverjum hreppi á landinu. Skýrslur um þetta eru til frá 1928, og bera þær vott um ægilegt ósamræmi í þessum efnum. Kostnaður við ómagaframfærsluna er svo misjafn, að hann er allt frá því að vera 1 kr. á hvern gjaldanda í hreppnum og upp í 141 kr. á gjaldanda. Ef teknar eru einstakar sýslur, þá er kostnaðurinn þar hæstur 79 kr. á gjaldanda, en lægstur 6 kr.

Ég skal að vísu játa það, að ekki er fengin fullkomin mynd af þunga ómagaframfærslunnar á hverjum hreppi eða sýslu, þó að fyrir liggi skýrslur um meðalupphæð á hvern gjaldanda, en aðrar skýrslur eru ekki fyrir hendi. Væri auðvitað heppilegra að fara eftir því, hve hátt framlag kemur á hvern verkfæran mann til jafnaðar. En tölur þær, sem ég nefndi áðan, gefa þó allglögga hugmynd um ástandið, enda þótt nokkuð misjafnar reglur gildi um álagningu, eftir því hvar er á landinu. Sumstaðar er eingöngu lagt á heimilisfeðurna, en hitt er þó algengast, að lagt sé á hvern verkfæran einstakling innan hreppsfélagsins.

Ég hefi þeim mun síður lagt vinnu í það að finna út, hve margir verkfærir menn séu í hverjum hreppi, að þó að skýrslur um það lægju fyrir, þá mundi samt ekki fást fullkomin mynd af ástandinu eins og það er í raun og veru. Það er svo margt annað, sem taka verður til greina, svo sem skuldlausar eignir innan hreppsins, árstekjur skattþegna, fjöldi ómaganna o. s. frv. — Ég skal aðeins leyfa mér að benda á það, þótt það að vísu sé óþarft hér, að ómagaframfærslan er oftast þyngst þar, sem gjaldþol skattþegnanna er minnst. Afleiðingin af því getur orðið sú, að hreppurinn leggist blátt áfram í eyði, því að það má gera ráð fyrir því, að allir, sem einhver ráð hafa, flytji sig burt úr slíkum hreppi, og hinsvegar muni menn lítt fýsa að flytjast þangað og setjast þar að.

Ég vænti þess, að ég þurfi ekki að hafa lengri formála fyrir þáltill. þessari; ég vona, að allir hv. þdm. séu sammála um það, að hún fer fram á auðsýnt réttlæti. — Ég skal játa það, að ég er þess ekki viðbúinn að benda á ákveðnar leiðir til þess að bæta úr ástandinu, en ég get hugsað mér lausn málsins á þá leið, að þegar þungi ómagaframfærslu í einhverjum hreppi færi fram úr því, sem væri meðaltal þessa þunga á öllu landinu, þegar einnig væri höfð hliðsjón af tölu gjaldenda, tölu verkfærra manna, eignum og árstekjum innan hvers hrepps o. fl., þá greiddi ríkið nokkurn hluta þess kostnaðar, sem færi fram úr meðaltagi. Ég segi nokkurn hluta hans, en ekki allan, með það fyrir augum, að áhugasveitarstjórnanna til að takmarka útgjöld við fátækraframfæri verði á þann hátt haldið innan eðlilegra vébanda.

Skal ég svo ekki fara um þetta fleiri orðum, og vænti þess, að hv. d. aðhyllist þáltill. mína.