08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 998 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

55. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Lárus Helgason) [óyfirl.]:

Eins og nál. á þskj. 148 her með sér, leggur n. til, að þetta frv. verði samþ. með breyt., sem á þessu þskj. standa. Þær eru ekki miklar.

Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum orðum um frv. sjálft. Þar er um nokkrar breyt. að ræða frá gildandi lögum. 1. gr. hefir það inni að halda, að hlutaðeigandi umsækjandi um lán úr sjóðnum sé skyldugur að senda afrit af skattskrá sinni um eignir og skuldir, staðfest af skattanefnd. Þessar breyt. hafa komið fram vegna þess, að stjórn sjóðsins á þá miklu hægra með að mynda sér skoðun um það, hvort réttlátt sé að veita lán þessum og þessum umsækjanda. Það mun hafa komið fyrir, að lán hafi verið veitt þar, sem tæplega hefir verið hægt að segja, að þörf hafi verið fyrir. Það er meiningin að girða fyrir þetta með þessum breyt.

Þá er 2. gr. frv.; hún hljóðar um það, að heimilt sé að byggja nokkur nýbýli; 10 stendur í frv., en n. leggur til, að þau verði ekki nema 5. Það er meiningin með þessu að heimila stjórn sjóðsins að veita lán til nýbýla, þó á sama tíma séu fyrir hendi fleiri umsóknir um byggingu á býlum með ræktuðu landi; meiningin er að loka ekki alveg fyrir það, að veita megi lán til nýbýla með óræktuðu landi, en takmarka þó töluna.

3. gr. frv. fjallar um það að gera nokkuð meiri jöfnuð á vöxtum úr sjóðnum til húsbygginga, þannig að það hverfi alveg að veita lán gegn 2%. Samkv. gildandi lögum fær sá maður betri kjör, sem ekki er farinn að vinna að ræktun. En þetta hefir þeim, sem um þessi mál hafa farið, ekki sýnzt réttlátt, og því er lagt til, að hér verði gerður jöfnuður á.

4. gr. frv. fjallar um það, að ekki megi veita meira en 10 þús. kr. til hvers býlis um sig. Með þessu móti, að takmarka féð, ætti á hverju ári að vera fyrir hendi fé til að endurreisa býli.

Þá hefir 5. gr. frv. inni að halda að gera nokkuð meira réttlæti í leigu eða vöxtum eftir fé, sem stendur í hverju býli, ef eigendaskipti verða. Í núg. lögum er sýnilegt, að sá, sem eignast býli, sem byggt er fyrir fé úr byggingarsjóði, fær ekki nær því vexti af því fé, sem í býlinu stóð. Með þessari breyt. er eigendum gert mögulegt að fá þá vexti af fé sínu.

Þá er b-liður þessarar gr., og um hann er n. ekki á einu máli; 2 af nm. hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, og þeir munu gera grein fyrir þeim fyrirvara. Meiri hl. n. sýnist þess ekki nauðsyn.

6. gr. frv. hljóðar um það, að stj. sjóðsins sé heimilt að byggja upp á 4 fyrirmyndarbúum á landinu, einu í hverjum landsfjórðungi, en þó eru samkv. till. n. sett takmörk fyrir þessari fjárveitingu, þannig að stjórn sjóðsins er ekki heimilt að veita yfir 20 þús. kr. til hvers býlis um sig.

Ég held að ég hafi þá útskýrt þetta frv. eins og það liggur fyrir nægilega mikið til þess, að hv. dm. geti myndað sér skoðun um það. Sem sagt leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem í nál. standa.