21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (1285)

368. mál, fátækraframfærsla

Héðinn Valdimarsson:

Við Alþýðuflokksmenn höfum oft borið fram fátækralagafrv. hér á þinginu, og liggur slíkt frv. nú fyrir Ed. Þær umbætur, sem við viljum gera á fátækralögunum, eru aðallega tvennskonar: Betri kjör þeirra, sem njóta fátækrastyrks, og meiri jöfnuður milli framfærsluhéraðanna.

Það er gleðilegur vottur um aukinn skilning þingsins á þessum málum, að hv. þm. G.-K. skuli nú bera hér fram þáltill., sem felur í sér annað þessara atriða. Það sýnir, að ekki verður lengi staðið móti þessum réttlætismálum, þegar fulltrúar íhaldsins fara sjálfir að bera fram þau mál, er þeir hafa áður barizt í gegn.

Þetta mál yrði leyst, ef frv. okkar í Ed. yrði samþ., en flokksmenn hv. þm. G.-K. þar virðast ekki hafa neinn áhuga fyrir því. Það getur hugsazt, að fara mætti einhverjar aðrar leiðir heldur en þar eru farnar, til þess að koma á meiri jöfnuði milli framfærsluhéraðanna og betri meðferð ómaganna, en þessar leiðir mundu reynast færar. Ég vil lýsa yfir því, að ég get greitt þessari till. atkv., þó að það væri miklu eðlilegra, að frv. okkar í Ed. yrði samþ.