21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (1287)

368. mál, fátækraframfærsla

Halldór Stefánsson:

Ég hefi tvisvar áður reynt að vekja athygli Alþingis á því, hversu útgjöldin af fátækraframfærslunni koma misjafnt niður á einstök framfærsluhéruð. Mér þykir gott til þess að vita, að fleiri skuli vekja athygli á þessu, og vona ég, að það verði til þess, að skriður komist á málið og að ekki liði á löngu áður en bætt verður úr því óhæfilega misrétti, sem á þessu er.

Ég hefi tvisvar lagt fram í þinginu skýrslur, sem sýna, hve geysimisjafn þungi hvílir á sveitarfélögunum í þessu efni. Skýrslur þessar eru ekki frá sama tíma og þær eru byggðar á mismunandi grundvelli. Hin fyrri er frá 1927, og var álögunum til fátækramála þar jafnað niður eftir fólksfjölda hinna einstöku framfærsluhéraða. Hin síðari var lögð fram nú á þinginu í vetur og var hún byggð á þeim grundvelli, að miða útgjöldin til fátækraframfærslu við skattskyldar eignir og tekjur innan hinna einstöku héraða. Verður það að teljast sá réttlátasti mælikvarði, sem hægt er að miða við. Í þessari skýrslu á þskj. 91 frá í vetur er álöguþunginn til fátækramála talinn 1, þar sem hann er minnstur, og verður hann þá 23,3, þar sem hann er mestur. — Ég skal þó taka það fram, að ég hefi í þessum samanburði orðið að taka sýslufélögin, þ. e. meðaltal af fátækrabyrði hreppsfélaganna innan hverrar sýslu; en ekki hvert framfærsluhérað á landinu fyrir sig til samanburðarins, en kaupstaðirnir eru taldir hver fyrir sig. — Þessi gífurlegi munur, 1 á móti 23,3, er nægilegur til þess að sýna, hve óhæfileg skipan þessara mála er nú. Afleiðingin hefir orðið sú, bæði fyrr og síðar, að einstök framfærsluhéruð hafa ekki valdið sínum hluta og orðið að leita á náðir þingsins. Ég get ekki nógsamlega lýst því hróplega ranglæti, að sjálft Alþingi skuli með þessari ranglátu skipan fátækramálanna óbeinlínis hafa lagt einstök framfærsluhéruð í fjárhagslega auðn.

Menn hafa bent á ýmsar leiðir til þess að ráða bót á þessum vandkvæðum. Ég hefi bent á leið, sem ég hygg, að myndi leiðrétta þetta að miklu leyti, sem sé þá, að framfærsluskyldan verði látin fylgja heimilisfanginu. Ég hefi áður fært rök að því, að þessi tilhögun myndi mikið jafna misréttið, en að hve miklu leyti, þori ég ekki að fullyrða. Þeir kostir mundu líka fylgja þessu fyrirkomulagi, að fátækraflutningarnir féllu úr Sögunni, og sömuleiðis allur sá ágreiningur, málaferli og skriffinnska, sem nú á sér stað út af því, hvaða framfærsluhéruðum þurfamennirnir heyri til.

Jafnaðarmenn hafa bæði fyrr og síðar bent á aðra leið róttækari, sem sé þá, að landið verði gert allt að einu framfærsluhéraði. Menn þykjast sjá þann agnúa á því fyrirkomulagi, að útgjöldin í heild myndu með því fyrirkomulagi verða miklu meiri en ella. En hvað sem um þetta má segja, þá tel ég þó réttara að hverfa að þessari leið en hafa það fyrirkomulag, sem nú er.

Þá hefir verið bent á þá leið, að haga framlagi héraðanna til fátækraframfærslu líkt og framlagi til berklavarna, þannig að þau greiddu tiltekið gjald miðað við ákveðinn grundvöll, sem lagður væri, t. d. þann grundvöll, sem sýslusjóðsgjöldin eru innheimt eftir, og ríkið greiði svo úr sameiginlegum sjóði það, sem á vantar. Það hefir þannig verið bent á ýmsar leiðir líklegar til umbóta á þessum málum, og ég er þess fullviss, að hæstv. stj. geti fundið einhverja leið, sem er til umbóta í þessu efni. Hitt ætla ég, að það sé vandhitt á þá leið, sem allir væru sammála um, en hinsvegar efast ég ekki um, að hver sú breyt., sem samkomulag næst um, verður betri en sá grundvöllur, sem við nú stöndum á.