21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (1288)

368. mál, fátækraframfærsla

Bergur Jónsson:

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að till. í þessa átt er komin fram. Það er enginn vafi á því, að skipting fátækraframfærslunnar á hin einstöku sveitarfélög er orðin mjög ranglát, og mætti nefna til þess mörg dæmi. Ég vil nefna aðeins eitt dæmi upp á það, hve ranglát hún er. Það er einn hreppur, sem hefir 150 íbúa, og þar af eru 2 bjargálna bændur, og því engin leið að jafna niður meiru en 1500–2000 kr., en á einu ári fellur á hreppinn framfærsla þriggja óskilgetinna barna, ca. 1000 kr. árleg greiðsla, og jafnframt á hreppurinn að sjá fyrir heimili í Rvík, og fara til þess um 2000 kr. Hann þarf því að greiða í þessa tvo staði hærri upphæð en mögulegt er að jafna niður til allra útgjalda hreppsins.

Þetta er aðeins eitt dæmi, en ég býst við, að til séu mörg þessu lík. Ef þessu heldur áfram, þá verður hreppurinn óhjákvæmilega að gefa sig upp sem gjaldþrota — en sú leið hefir nú aldrei verið farin og óvíst, hvernig að ætti að fara, ellegar þá að ríkissjóður hlaupi undir bagga með honum, því það er venjulega svo ástatt um sýslufélögin, að þau geta ekki hjálpað.

Það er varla um annað að ræða eða nú í þessu efni en að fara þá leið, að koma þessu svo fyrir, að niðurjöfnunin sé í samræmi við gjaldþol hvers héraðs. Þetta er reynt í frv., sem hv. 2. landsk. hefir borið fram í Ed. En framtíðarskipulagið, sem stefna ber að og þegar er vel ú veg komið í ýmsum menningarlöndum, sérstaklega hjá frændþjóðum vorum á Norðurlöndum, eru almennar tryggingar. Með því fyrirkomulagi næst stórfé til ýmsra þarfra fyrirtækja, auk þess sem styrkþága verður styrkþegum léttbærari á þann hátt. Annars er þetta mál til rannsóknar þegar búið er að samþ. till.