08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

55. mál, byggingar- og landnámssjóður

Steingrímur Steinþórsson:

Hv. frsm. gat þess, að við hv. þm. Mýr. hefðum skrifað undir nál. með fyrirvara viðvíkjandi b-lið í 5. gr. frv., sem hv. flm. (BÁ) leggur til, að bætt sé í 9. gr. laganna um byggingar- og landnámssjóð, og það er um það, að ef endurgreitt er lán fyrir umsaminn tíma, þá skuli lánþegi greiða þann mismun, sem stafar af því, að hann hefir fengið lán í byggingar- og landnámssjóði, en ekki í veðdeild Landsbankans. Við, sem skrifuðum undir með fyrirvara, álítum, að þetta sé rétt, því ég get ekki hugsað mér, að nokkur greiði lán úr peningastofnun, sem veitir jafnhagfelld kjör og byggingar- og landnámssjóður, nema hann hugsi sér að selja eignina hærra verði en lögin heimila. Ég sé ekki ástæðu til að lyfta undir slíkt með því að veita nokkur sérstök verðlaun hvað þetta snertir. Af þessu álítum við, að rétt sé að halda þessu ákvæði hér. Það gæti einnig komið til greina, að viðkomandi yrði snögglega svo vel stæður efnalega, að hann vildi losna við þessa skuld, enda þótt hann hugsi sér að selja ekki eignina, en ef svo er, getur hann auðveldlega greitt þennan vaxtamismun, sem hér um ræðir. Virðist mér því þessi hlið málsins ekki heldur réttlæta það, að b-liður í 5. gr. verði felldur.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en við hv. þm. Mýr. leggjum til, að d. samþ. aðalliðinn þannig, en meiri hl. hefir orðið ásáttur um að fella hann burt.