08.08.1931
Neðri deild: 24. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (1291)

55. mál, byggingar- og landnámssjóður

Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins geta þess, til viðbótar því, sem hv. frsm. sagði út af þessum till. okkar meiri hl., að mér virðist dálítið varhugavert að samþ. þetta, því eins og hv. 1. þm. Skagf. tók fram, þá getur vel orðið sú breyt. á efnahag þeirra manna, sem fengið hafa lán úr byggingar- og landnámssjóði til þess að reisa hús á jörðum sínum, vegna þess að þeir hafa ekki verið færir um það af eigin rammleik, að þeir verði síðar þess megnugir að greiða lánin upp fyrir tilsettan tíma. Það má e. t. v. segja, að þegar menn eru orðnir svo efnaðir, þá sé þeim engin vorkunn að greiða þennan vaxtamun, en vel gæti verið, að þeir litu svo á, að þeir gætu gjarnan sparað sér þetta og greiddu ekki upp lánið þó þeir gætu. Afleiðingin af þessu verður sú, að margir þeir menn, sem gjarnan vildu og þyrftu að njóta þeirra lánskjara, sem byggingar- og landnámssjóður hefir að bjóða, færu á mis við það, sökum þess, að sjóðurinn getur ekki fullnægt þeim lánbeiðnum, sem honum berast. Það er að þessu leyti óheppilegt að taka þetta ákvæði upp í lögin.