17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Sem einn þeirra þingmanna, sem horfa kvíðnir fram í ókomna tímann, get ég ekki þakkað hæstv. forsrh. fyrir það gutl og glamur, sem hann hefir látið sér sæma að bera fram hér í þessari hv. deild. Slík framkoma ber vott um, að hæstv. ráðh. er hvorki svo alvörugefinn né hugsandi maður, að ætlast megi til þess af honum, að hann fái miklu áorkað til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem nú eru að steðja að.

Það var aðallega eitt atriði, sem fram hefir komið í þessum umr., sem mig langaði til að drepa á, og það stendur í sambandi við fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv.

Ég kom af hendingu til eins bónda, sem svo stendur á um, að búsettur er hér í bænum, og festi ég þar auga á þeirri bók, sem um hefir verið talað. Ég greip ofan í þessa bók og blaðaði í henni og sá, að þar var talað um þjófa, ræningja og svikara, þótt þar væri að vísu ekki verið að tala um stj., heldur borgarana í Reykjavík. Þar sá ég, að ég var stimplaður sem skattsvikari, þótt aldrei hafi komið fram neinar kvartanir um slíkt, hvorki frá Einari Arnórssyni, Helga Briem né þeim skattstjóra, sem nú er. Það er ekki heldur nóg með það, að ég hafi verið stimplaður sem slíkur, heldur fær öll bæjarstj. svipaðar ásakanir. Ég hefði tæpast getað haldið, að flokkur hæstv. forsrh. gæfi slíkar svívirðingar út á eigin kostnað, hvað þá heldur, að því væri dreift út um landið fyrir fé ríkissjóðs undir því yfirskini, að verið sé að fræða menn um þær framkvæmdir, sem átt hafi sér stað síðustu árin. Auk þess segi ég, að ég vil ekki láta mér það lynda, að þeir menn fari lengur með völd í landinu, sem eru svo óskammfeilnir að taka tugi þúsunda úr ríkissjóðnum til þess, þegar þeim þykir henta, að gefa út hvert ritið á fætur öðru í þágu sins eigin flokks. Þetta rit er — að svo miklu leyti, sem ég á stuttri stund gat séð — að nokkru leyti hlutlausar skýrslur um það, sem gerzt hefir í landinu, skýrslur, sem fæstir lesa og enginn man, en gefnar eru út í þeim tilgangi að reyna að smeygja út til almennings lofi um stj., en að nokkru leyti rógur, dylgjur og rangar frásagnir um heilar stéttir manna, og einkum Reykvíkinga. Sannarlega mætti syndapoki stjórnarinnar teljast fullur í augum Reykvíkinga, þó að ekki væri ofan á allt, sem hæstv. forsrh. sagði í kosningabaráttunni, hætt einnig þeirri svívirðingu, að gefa út á prenti róg og níð um bæjarbúa fyrir ríkissjóðs reikning.

Ég vil ekki þola það til langframa, að þeir menn stjórni, sem hafa auk alls annars farið þannig með fé ríkissjóðs, að þegar guð og gæfan lögðu oss í ríkissjóðinn 15 millj. kr. í afgang, hafa þeir ekki eingöngu eytt því öllu, heldur safnað stórum fúlgum af skuldum, svo að nú þegar hallærið skellur yfir, er ómögulegt að rétta atvinnurekendum og þiggjendum hjálparhönd, hversu illa sem komið er fyrir þeim. Og þegar ofan á þetta sukk stjórnarinnar bætist sú óskammfeilni, að hæstv. forsrh. lýsir alveg ófeiminn yfir því, að hann ætli beint að stela úr ríkissjóðnum (Forseti hringir). Ég sagði „að stela“; ég segi ennþá „að stela“. Og ég skal stefna hæstv. forsrh. fyrir þessa bók og sýna honum, að það er óviðurkvæmilegt að skrifa og gefa út á alþjóðarkostnað óverðskulduð meiðyrði um einstaka menn. Það heitir á íslenzku „að stela“. (Forseti hringir). Já, hæstv. forseti, það heitir að stela. (Forseti hringir). Samt heitir það að stela. Og að prenta login meiðyrði um þingmenn á kostnað ríkissjóðs, það er atferli, sem ekki má láta ómótmælt, þótt erfitt sé að hlusta á hin réttu orð um það. Slíkt má ekki þolast átölulaust, hver sem það gerir og hvenær sem það er gert.