20.08.1931
Efri deild: 34. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (1301)

324. mál, Hafnarfjarðarvegur

Jónas Jónsson:

Það er rétt hjá hv. flm. þessarar till., að vegamálastjóri lítur svo á, að þetta mál sé ekki það vel undirbúið, að komið geti til greina að taka ákvörðun um það nú strax. Því er það rétt leið að bera fram till. um það, að málið verði rannsakað. Hvort þessari till. verður vísað til n. eða ekki, skiptir litlu máli. — Það er rétt hjá hv. 2. landsk., að þetta verk er þess eðlis, að búast má við, að gripið verði til þess í sambandi við þá dýrtíðarvinnu, sem óhjákvæmilegt er, að fram fari hér í haust.

Ég vil hinsvegar láta í ljós, að í sjálfu sér er nýr vegur milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur ekki eins mikil augnabliksnauðsyn eins og ýmsir aðrir vegir, t. d. vegurinn yfir Holtavörðuheiði, því að hann er bezti vegur landsins eins og hann er.

Ef byrjað væri á þessu, þá væri rétt að gera tilraunir með vegalagningu, hvaða aðferð hentar bezt. Mér dettur í hug því til samanburðar, að frá Kaupmannahöfn til Hróarskeldu eru 10 mismunandi gerðir á veginum, og þetta er gert í vísindalegum tilgangi, til þess að finna út, hver gerðin sé haldbezt.

Hitt hygg ég að hv. þm. Hafnf. geti skilið, þar sem byrjað var á veginum árið 1918 og svo hætt aftur, að hugsanlegt er að gera þarna svo vandaðan veg, að verið verði lengi með hann. Mér dettur einnig í hug, að komið gæti til mála að hafa létta járnbraut á milli Hafnarfj. og Rvíkur, því að það er ennþá órannsakað. Það hefir sýnt sig, að það er miklu ódýrara að hafa slíkar járnbrautir, því að slitið er minna og minni núningsmótstaðan, en stofnkostnaður aftur meiri. Ef mótorar eru hafðir, sem draga 3 vagna handa 30 mönnum, þá er ég viss um, að ódýrara reynist, að þeir séu í förum heldur en að nýr vegur væri lagður til bílaumferðar.

Þetta breytir hinsvegar engu um rökstuðning hv. þm. Hafnf. fyrir till., en þetta myndi einnig verða til atvinnubóta og veita miklum fjölda manna vinnu, ef til framkvæmda kæmi.