04.08.1931
Neðri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1932

Haraldur Guðmundsson:

Hv. frsm. fjvn. lauk ræðu sinni með því að skora á hv. þm. að sýna nú ábyrgðartilfinningu sína með því að samþ. ekki neinar till., sem færu fram á aukin útgjöld fram yfir það, sem hv. n. leggur til, svo að ekki verði tekjuhalli á fjárlögunum. Þessi hv. þm. er samflokksmaður hæstv. stj. Frv. er samið af stj. og hv. fjvn. hefir engar efnisbreyt. á því gert.

Á síðasta ári fékk þessi stj. til meðferðar 5 millj. kr. umfram áætlun fjárlaga og skilar samt 1 millj. kr. tekjuhalla. Og svo kemur þessi hv. þm. fyrir hönd stjórnarinnar og skorar á hv. þm. að sýna nú ábyrgðartilfinningu sína. Við hv. frsm. vildi ég segja: „Skjóttu geiri þínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er“. Fjárl. fyrir s. l. ár voru samin með svo mikilli „varúð“, að tekjur fóru 5 millj. kr. yfir áætlun. Og þessu fé ráðstafaði ríkisstj. á þann veg, að enginn einasti eyrir er eftir, en reikningurinn sýnir 1 millj. kr. tekjuhalla. — Og nú brýnir hv. frsm. það fyrir þdm. að sýna nú ábyrgðartilfinningu sína með varúð í því að samþ. útgjaldaliði á fjárlagafrv. Ég vil segja, að slíkt gengur ósvífni næst.

Þetta fjárlagafrv., sem almennt gengur undir nafninu „sultarfjárlög“, munu flestir ganga út frá, að verði samþ. að mestu eins og það kemur frá stjórninni, því að það mun vera fullkomið samkomulag milli Íhalds- og Framsóknarflokksins um þetta frv. Það hefir ekki komið fram hinn minnsti ágreiningur í hv. fjvn. Fulltrúar beggja flokkanna hafa fallizt þar í faðma.

Undanfarin 2 ár hefir verið varið úr ríkissjóði til verklegra framkvæmda yfir 4 millj. kr. á ári. Þegar nú atvinnuleysið er fram undan og meiri þörf en nokkru sinni áður á því, að eitthvað sé aðhafzt, hvað gerir þá hæstv. stj., flokkur hennar og Íhaldsflokkurinn að tillögum sínum um framkvæmd opinberra verka? Það er ekki fjarri lagi að gera sér ofurlitla grein fyrir því. Hefi ég því tekið upp þá liði, sem áætlaðir eru til verklegra framkvæmda í fjárlagafrv.

Samkv. 3. gr. frv. er áætlað

til síma ......... ............ 70 þús.

og styrkur til aukasíma ...... 50 —

til vega ...................... 180 —

og styrkur til sýsluvega . . . .. . 120 —

til brúa . .. . . . . . . . . . . . . . . . . 50 —

til fjallvega . . . . . . . . . . . . . . . . 15 —

til vita .......... .... ..... 20 —

til hafnargerðar á Akranesi .. 50 —

til skólabygginga utan kaupstaða ........ 70 —

og í kaupstöðum . ......... 20 —

og ýmislegt samkv. 16. gr. . ... 16 —

Samkvæmt þessu veitir ríkið því beint til verklegra framkvæmda .... 340 þús.

og sem styrk ................ 326 —

Alls veitir ríkissjóður því til verklegra framkvæmda heilar segi og skrifa 666 þús. kr. Einhvern pata hefir hv. n. haft af því, að það myndi ekki vera vel til fallið, þegar gætt er atvinnuleysisins, að skera svona niður allar verklegar framkvæmdir, og hefir því viljað gera ofurlitla bragarbót og lagt til, að bætt verði við þessa upphæð 160 þús. kr., svo að alls á að verja til verklegra framkvæmda á árinu 1932 liðlega 800 þús. krónum. En það er ekki ¼ þeirrar upphæðar, sem undanfarið hefir árlega verið veitt til þessara framkvæmda. Því nær allar verklegar framkvæmdir eru skornar niður á sama tíma og atvinnuþörfin er meiri en nokkru sinni áður. Þetta er skilningur þess flokks, sem völdin hefir, á ástandi því, sem nú er að hefjast.

Því hefir verið lýst yfir, að engin atvinnukreppa væri í sveitunum. Nú mætti draga af því þá ályktun, að mikill hluti þessara smávægilegu fjárveitinga yrði látinn ganga til framkvæmda í og í nánd við kaupstaðina, þar sem atvinnuleysið er mest. En það er nú eitthvað annað. Aðeins 70 þús. kr. eiga að fara til verklegra framkvæmda í kaupstöðum, 20 þús. kr. til skólabygginga og 50 þús. kr. til bryggjugerðar á Akranesi. Hitt fer allt í sveitirnar. Því ber að vísu ekki að neita, að nokkur atvinnubót verður að þeim framkvæmdum fyrir kaupstaðina, af því að verkamenn þaðan starfa að verkinu að einhverju leyti, en sveitamenn njóta þó meiri vinnu við framkvæmdir í sveitum.

En samhliða því, að þannig eru skornar niður verklegar framkvæmdir, þá eru aðrir liðir látnir óskertir standa, svo sem öll beinu og óbeinu framlögin til landbúnaðarins. Jarðabótastyrkur er áætlaður 540 þús. kr., til búnaðarfélaganna um 300 þús. kr. og til Búnaðarbankans 400 þús. kr. Þetta verður samtals um 1300 þús. kr., og er það heldur hærri upphæð en var í síðustu fjárlögum.

Ég get þegar lýst yfir því, að við Alþýðuflokksmenn munum greiða atkv. á móti fjárlagafrv. og það þótt brtt. þær, sem við höfum borið fram, nái fram að ganga. Við álítum það algerlega ósæmandi að afgreiða fjárlög eins og þessi eru, þegar athugað er, hvernig ástandið er.

Ég veit vel, að hv. þdm. ýmsir telja ekki hægt að afgreiða fjárlögin öðruvísi, vegna yfirstandandi fjárhagsörðugleika. En ég veit líka, að hv. þdm. mun það í minni, að í vetur bar ég fram till., þar sem farið var fram á 1700 þús. kr. til verklegra framkvæmda, og gerði ráð fyrir, að það myndi óhætt að hækka ýmsa tekjuliði um þessa upphæð samtals. En þá var fullyrt af fjvn., að þessi áætlun mín um tekjurnar næði ekki nokkurri átt. Það er því nokkuð kátbroslegt, að nú hefir hv. fjvn. tekið upp fulla 3/4 af hækkunartillögum mínum við tekjuliðina, og hv. frsm. virtist ekki vera neitt feiminn við það, heldur sagði, að vel mætti ætla, að sumir tekjuliðir færu ennþá hærra, svo að sýnilega hefir n. nú fallizt á það, sem ég hélt fram í vetur um að tekjuáætlunin væri úr hófi lág. En munurinn er sá, að talsvert af þessum tekjuauka fer samkv. till. fjvn. í það að bæta í gloppur fyrrverandi stj. og telst til leiðréttingar, en aðeins lítill hluti gengur til verklegra framkvæmda. En ég get líka sagt það, að ég tel ekkert við það að athuga, þótt í árferði eins og nú er, kynni að verða svo sem 1 millj. kr. tekjuhalli, sízt þegar þess er gætt, að samkv. landsreikningnum 1929 á að hafa verið í sjóði um síðustu áramót fast að 5 millj. kr. Samkvæmt landsreikningnum 1929 var í sjóði í árslok 1929 5,7 millj., og þar sem tekjuhalli var síðastl. ár 1 millj., þá hefði átt að vera í sjóði um síðustu áramót 4,7 millj. Ég sé ekki, að neitt sé við því að segja, þótt gripið sé til þessa sjóðs í því árferði, sem nú er. Að vísu hygg ég, að ekki þurfi til þess að grípa, því að svo varlega eru enn áætlaðir tekjuliðirnir.

Brtt. okkar Alþýðuflokksmanna hafa allar verið felldar við 2. umr. Það sýnist því þýðingarlítið að vera að bera þær fram aftur, enda ekki aðrar fram bornar en þær, sem aftur voru teknar við 2. umr.

Ég ætla þá að víkja nokkrum orðum að brtt. okkar jafnaðarmanna um 25000 kr. fjárframlag til Fjarðarheiðarvegarins. Það er óþarfi að fjölyrða um þessa till. Hún hefir legið fyrir Alþ. a. m. k. 3 síðustu þing, og hefir alltaf verið felld með litlum atkv. mun. Ef borin eru saman fjárframlög til vega og annara verklegra framkvæmda í hinum ýmsu fjórðungum landsins, er ekki nokkur vafi á því, að Austfirðir og Vestfirðir verða þar harðast úti. Og það er mjög ósanngjarnt að afskipta gersamlega einstök héruð, meðan er á annað borð veitt nokkuð í þessu skyni.

Þá er það XXV. brtt. á þskj. 183, um að veittar verði 5500 kr. til brimbrjótsins á Skálum á Langanesi. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. N.-Þ. geti fullkomlega upplýst nauðsyn þessa máls og geri það, þegar hann mælir fyrir brtt. XXVI. á sama þskj.

Um LXII. brtt. á sama þskj. sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða; vil aðeins mæla eindregið með henni og vonast til þess, að hv. þdm. sýni henni velvild.

Þá er það LXV. brtt. á sama þskj. Hún er í þrem liðum. Ég ætla að fara fáeinum orðum um hvern fyrir sig, og óska eftir, að þeir verði einnig bornir upp hver fyrir sig.

Um a-liðinn er engin ástæða að fjölyrða. Þessi ábyrgð, sem beðið er um, er afarnauðsynleg. Lánið er ætlað til byggingu rafstöðvar, sem sé svo sterk, að hún sjái ekki einungis Ísafjarðarkaupstað fyrir nægu rafmagni til ljóss, hita og suðu, heldur og einnig öllum Eyrarhreppi.

B-liðurinn er um ábyrgð fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði — fyrir lánum til kaupa á fiskiskipum. Skilyrði ábyrgðarinnar eru þau sömu og fyrir ábyrgð ríkisstj. fyrir samvinnufélag Ísfirðinga. Ég ætla að upplýsa það strax, að hv. þdm. þurfa ekki að setja fyrir sig, að farið verði að flagga með ríkisábyrgðinni utanlands, því að lánin yrðu öll tekin hér á landi.

Austfirðir eru allra héraða verst settir í atvinnulegu tilliti. Fiskveiðalöggjöfin, sem sumir halda svo mjög fram, hefir átt mikinn þátt í að skapa það vandræðaástand, er þar ríkir. Með henni eru útlendingar útilokaðir frá atvinnurekstri þar, og menn á staðnum ekki megnugir þess að halda honum uppi. Því nær allsstaðar á Austfjörðum, að Norðfirði einum undanteknum, eru enn notaðir samskonar bátar og veiðarfæri og á Suður- og Vesturlandi fyrir 15–20 árum.

Ef ábyrgðin yrði samþ., gætu a. m. k. Seyðfirðingar aflað sér nokkurra samskonar skipa og útgerðartækja og nú eru notuð annarsstaðar á landinu, og gert tilraun til þess að vita, hvort ómögulegt sé að reisa við sjávarútveginn á Austfjörðum. En synji þingið um þessa ábyrgð, virðist það alveg ætla að láta reka á reiðanum um afkomu manna austur þar. Því að það er gersamlega vonlaust, að sjávarútvegurinn beri sig með þeim tækjum, sem þar eru notuð á landi og sjó.

Till. undir c-lið fer fram á ríkisábyrgð fyrir síldareinkasöluna og er samhlj. till. fjvn., nr. LXIII. að öðru en því, að í okkar till. er farið fram á ábyrgð fyrir 1 millj. kr. láni, en í till. fjvn. aðeins fyrir 500 þús. kr. Samkv. skeyti, sem nýlega hefir borizt hingað, er síldareinkasalan ekki farin að borga síldveiðendum einn eyri fyrir síld þá, sem þeir hafa lagt inn í sumar. Farið hefir verið fram á, að síldareinkasalan greiddi 5 kr. af hverju máli, en fé hefir vantað. Þetta ætti að vera nóg til þess að sýna, hve brýna nauðsyn ber til þess að leysa vandræði þessara manna. Og ef ábyrgð ríkisins fæst, svo að síldareinkasalan gæti tekið nógu hátt lán, til þess að geta borgað út jafnóðum og síld kemur inn, væri að því mikil bót. Um áhættu fyrir ríkissjóð er ekki að tala í þessu sambandi, því að gert er ráð fyrir, að lánið verði greitt upp áður en eiganda er greitt meira en 18 kr. á tunnuna af saltsíld, en það mun svara til 5 kr. á tunnu af hrásíld. Svo að ekki er hægt að gera ráð fyrir, að síld verði í svo lágu verði, að nokkur hætta sé á því, að lánið verði ekki borgað upp.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég ætla aðeins að endurtaka það, sem ég hefi sagt áður, að mér finnst ósæmandi að afgreiða fjárl. með því sniði, sem þau eru nú, og ég og minn flokkur munum greiða atkv. á móti frv.