18.08.1931
Neðri deild: 32. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1340)

113. mál, verkamannabústaðir

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil þakka hv. minni hl. n. fyrir það, að hann hefir viljað mæla með því, að frv. næði fram að ganga, þótt með nokkrum breyt. sé frá því, sem við höfðum hugsað okkur. En sumar þessar breyt. eru að öllu leyti réttmætar, eins og t. d. 2. breyt., þar sem mun aðeins hafa verið um misprentun að ræða, en n. hefir leiðrétt. Það er heldur ekkert við þeirri breyt. að segja, að þetta komi í gildi 1932 í stað 1931, þar sem svo er áliðið árs. Hinar brtt., sem n. hefir borið fram, eru heldur til þess að draga úr frekari fjárveitingum til byggingarsjóðanna. og þótt við séum ekki ánægðir með það, þá er það þó nokkur bót frá því, sem nú er, sem fæst, ef till. minni hl. ná samþykki.

Mér skildist á hv. þm. Barð. eins og við hefðum ætlazt til að hækka hámarkið á tekjum manna, sem njóta mættu þessara kjara sjóðanna. en þetta er ekki rétt að öðru leyti en því, að við vildum taka meira tillit til þess, hvort menn hefðu ómaga eða ekki. Ætluðumst við til, að tekjur þeirra manna, sem ómegð hefðu, mættu vera talsvert hærri en hinna. Hv. minni hl. hefir þó að nokkru gengið inn á þá till. okkar, þótt hann að vísu vilji ekki leggja jafnmikið með hverjum ómaga og við flm. frv. vildum.

Þá vill hv. minni hl. fella niður síðustu málsgr. frv., um að verkamannabústaðirnir séu undanþegnir fasteignaskatti hin fyrstu 5 árin. Þar sem það er tekið fram í l., að lóðin skuli vera leigulóð bæjarins, þá er ekki um önnur gjöld að ræða en af byggingunum, en ekki af lóðum. Það, sem fyrir okkur flm. vakti þegar við settum þetta ákvæði inn í frv., var það, að víða erlendis eru þessar byggingar styrktar á þann hátt, að þær eru látnar vera undanþegnar fasteignaskatti, og finnst okkur það réttmætt í alla staði. eins og í ákveðnum tilfellum tekjulágir menn eru undanþegnir tekjuskatti.

Hv. 1. þm. Rang. talaði hér fyrir hönd meiri hl. n. um það, að n. væri á móti frv., að henni þætti það ótímabært og viðsjárvert á mörgum sviðum, og myndi auk þess ekki ganga fram, ef allt færi með felldu um þingslit. Ég veit nú ekki, við hvað hv. þm. á með því að „allt fari með felldu um þingslit“; þá fyrst fer allt með felldu um þingslit að mínu áliti, ef nauðsynjamálum þeim, sem fyrir þinginu liggja, er farsællega til lykta ráðið.

Hv. þm. fann það einkum að frv., að tekjuaukanum, er það færði byggingarsjóðunum, yrði varið með nokkuð annað fyrir augum en upphaflega var ráð fyrir gert, þar sem ætlazt var til, að fénu yrði einungis varið til vaxtajafnaðar, á svipuðum grundvelli og byggingar- og landnámssjóður ver sínu fjármagni. Í lögum um verkamannabústaði er gert ráð fyrir því að fé verði greitt til vaxtajafnaðar, en þar er einnig gert ráð fyrir því, að féð verði lánað út, og það mun þegar hafa verið lítilsháttar notað á þann hátt. En ég verð að segja það, að því betur sem menn hugsa þetta mál, því nauðsynlegra virðist ekki einungis fyrir byggingarsjóði verkamanna, heldur einnig fyrir byggingar- og landnámssjóð bænda að fá fé bæði til vaxstajafnaðar og útlána. Og það mun sýna sig, að ekki er auðhlaupið að því að fá lán til þessara sjóða erlendis, en þá verður á einhvern hátt að safna fé innanlands, og er þessi kosturinn vænstur.

Hv. þm. var að tala um þetta sem styrktarmálefni, og þá þyrfti að athuga, hverjir væru styrkþurfi. Það er svo með öll mál, sem ríkið styrkir, að það má kalla þau styrktarmálefni. Það má taka t. d. vegamálin. Það má segja, að þar sem ríkið styrkir vegalagningar, þá sé það styrktarmálefni. Svo að það er ekki verið að fara inn á neitt óeðlilegt með þessu frv. Hér er einungis verið að hjálpa einni af stéttum landsins, stétt, sem á örðugast allra stétta, til þess að hjálpa sér sjálfri, byggja yfir sig. Það fé, sem við ætlumst til, að lagt verði til byggingarsjóðanna umfram það, sem verið hefir. eru nú engin ósköp. Eftir till. okkar eru það 60 þús. kr., en ekki nema 30 þús. kr. skv. till. minni hl. n., og það virðist ekki vera of mikið fyrir Reykjavík til þess að koma upp húsnæði fyrir lágtekjumenn sía, Á þeim stöðum, þar sem menn hafa vakandi áhuga fyrir slíkum málum, eins og t. d. á Ísafirði, leggur bæjarstj. einar 6–7 kr. á hvern mann sem skatt til þessara bygginga þá virðast þessar fáu krónur úr ríkissjóði varla of mikið fé. Það er nú þegar farið að fara inn á þá braut að auka féð til bygginganna, ef frv. um tóbakseinkasölu nær fram að ganga, því að skv. því á helmingur allra tekna einkasölunnar að renna til byggingar- og landnámssjóðs og byggingarsjóðs verkamanna. Mun fé þetta koma til útlána a. m. k. á þeim tímum, sem erfiðast er um lánsfé. Annars vil ég geta þess í þessu sambandi, að það eru gerðar harðari kröfur um það í l. um verkamannabústaði, hverjir eigi að fá að njóta þessara bygginga, heldur en gerðar eru um byggingar- og landnámssjóð. Þar er, að því er ég bezt veit, ekkert tekið fram um það, hversu miklar tekjur þeir menn megi hafa, sem geti fengið lán úr sjóðnum, þótt svo ætti að réttu lagi að vera, en um verkamannabústaðina eru rammar skorður reistar við því, að einungis lágtekjumenn njóti þeirra. Það eru því getsakir hjá hv. þm., þegar hann segir, að þeir einir muni njóta þessara bygginga, sem af eigin rammleik geti byggt. Mér er a. m. k. ekki kunnugt um slíkt, og ég get ekki skilið, að menn með þeim tekjum, sem allur almenningur hefir, mundu geta reist sér hús án nokkurrar aðstoðar. En jafnvel þótt meiri hl. n. væri nú á móti þessum tekjuauka til verkamannabústaðanna, þá eru ýms önnur atriði, sem hv. frsm. minni hl. tók fram, en hv. 1. þm. Rang. gerði ekki grein fyrir, hvers vegna hann væri á móti. T. d. það atriði, að ríkisábyrgð sé á öllu fénu, með bæjar- eða sveitarbakábyrgð, en ekki aðeins ábyrgð á hálfu fjárframlaginu eins og nú er. Við, sem erum riðnir við byggingar verkamannabústaðanna, álítum mjög svo nauðsynlegt, að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi, og óhjákvæmilegt um suma hluta þess. Að síðustu vildi ég óska þess, að meira tillit yrði tekið til álits hv. minni hl. n. en meiri hl.