19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

113. mál, verkamannabústaðir

Héðinn Valdimarsson:

Brtt. á þskj. 349, sem kemur hér nú væntanlega til atkv., kom hér fram við 2. umr., en var þá tekin aftur til 3. umr. Hún hljóðar á þá leið, að „lán úr veðdeild Landsbanka Íslands til verkamannabústaða gangi fyrir öðrum lánum úr veðdeildinni, án tillits til þess, í hvaða röð lánbeiðnirnar hafa borizt bankanum“.

Eins og frv. er nú, er gert ráð fyrir því, að hægt sé að skipta lánum þeim, sem byggingarsjóður tekur til verkamannabústaða, í 1. og 2. veðréttar lán, og sé 1. veðréttur allt að 60% af virðingarverði eignarinnar. Nú er það vitanlegt, að það liggja fyrir miklar lánbeiðnir úr veðdeild Landsbankans, og til þess að hægt sé að fá lán til verkamannabústaðanna, verða þau að ganga fyrir öðrum lánum. Okkur jafnaðarmönnum finnst það ekki muna miklu, þótt slík nauðsynjalán verði látin sitja fyrir öðrum lánum.