07.08.1931
Neðri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

66. mál, slysatryggingalög

Frsm. (Bergur Jónsson):

Allshn. leggur til, að þetta frv. verði samþ. með nokkrum breyt., og vísa ég til nál. þeim viðvíkjandi. Þær eru flestar smáar, t. d. er brtt. n. við 4. gr. aðeins orðabreyting. Fyrsta breyt. snertir tryggingar sjómanna. Nú er svo ástatt, að ef bátar stunda ekki sjó a. m. k. einn mánuð samfleytt á ári hverju, er ekki skylt að tryggja sjómennina. Þetta er svo óákveðið og getur oft orðið orsök til ágreinings, að við álítum heppilegast, að það ákvæði væri fellt niður. Smærri bátar, sem látnir eru sækja sjó t. d. aðra hverja viku eða annan hvern hálfan mánuð voru þannig ekki tryggingarskyldir, þótt sjósóknartími þeirra samtals yfir árið skipti fleiri mánuðum, en bátar, sem stunduðu sjó einn mánuð samfleytt, og svo ekki meira það ár, voru aftur á móti tryggingarskyldir.

Í b-lið 1. gr. er tekið upp ákvæði um, að þeir, sem stjórna landbúnaðarvélum, svo sem dráttarvélum, skuli vera tryggðir.

Í c-lið sömu gr. er sleppt úr ákvæðinu: Þar sem 5 manns eða fleiri vinna, eða aflvélar eru notaðar að staðaldri, enda virðist það meiningarlaus takmörkun.

Í 2. gr. er það lögfest, að forstjóri tryggingarstofnunar ríkisins skuli eiga sæti í stjórn slysatryggingarinnar, og virðist það sjálfsagt.

Í 4. gr. eru sett ákveðin skilyrði um bótakröfur frá þeim, sem slasast við atvinnurekstur þar, sem frjáls trygging gildir, — þar er m. a. sagt, að bótakröfur verði því aðeins teknar til greina, að iðgjöld hafi verið greidd áður en atvinnan byrjaði.

Þá er það brtt. á þskj. 100, sem er önnur orðun á brtt. hv. þm. Ísaf. á þskj. 79. Þar er tekið greinilega fram, að fingur- og handarmein heyri undir lögin. — Með þessum áorðnu breyt. leggur n. eindregið til, að frv. verði samþ.