10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1378)

66. mál, slysatryggingalög

Héðinn Valdimarsson:

Það gefur að skilja, að ég vil á engan hátt tefja fyrir framgangi þessa máls, jafnvel þótt þær till., sem við nú berum fram, yrðu felldar, en mér virðast þær, eins og hv. 1. þm. N.-M. gat um, vera svo einfaldar, að menn ættu að geta áttað sig á þeim í skyndi. Þetta er í raun og veru ekkert annað að fjárhagsspursmál. Öllum getur komið saman um það, að líf verkamannsins, sem verður fyrir slysi og bíður bana, er ekki hátt metið á 3000 kr., né heldur að verði maður örkumla, þannig að hann getur ekki unnið fyrir sér né sínum, þá sé sízt of mikið, að hann fái 6000 kr. bætur. Þetta er auðvitað algerlega ófullnægjandi að öllu leyti, og einungis lítilfjörleg hjálp til eftirlifendanna, og í því tilfelli, að maðurinn verði örkumla, þá geta þessar 6000 kr. vitanlega ekki hjálpað honum nema tiltölulega stuttan tíma. Hinu mun hv. þm. geta áttað sig á, hvort það er tilvinnandi, að menn leggi dálítið á sig í iðgjaldagreiðslum til þess að veita þeim, sem verst verða úti með slysabætur, ofurlítið meira en þeir fá nú. Ég held varla, að ágreiningur sé nú orðið um það, hverjir eigi að bera þessi gjöld. Um það var deilt hér áður, og þá varð það ofan á hér sem í útlöndum, að atvinnurekendurnir ættu sjálfir að halda uppi slysatryggingunum. Í þeirra þágu er verkið unnið og samfara þessu sérstaka verki er slysahættan, sem sá verður að bera, er ber fjárhagslega ábyrgð verksins. Enda hygg ég satt að segja, að margir þeirra manna, sem hafa atvinnurekstur með höndum og hafa aðra menn í vinnu, myndu ekki telja eftir sér að greiða meira í iðgjöld, til þess að menn þeir, sem hjá þeim ynnu, yrðu betur tryggðir. Ég veit, að hv. þm. er vel kunnugur þessum málum sem forstj. Slysatryggingar ríkisins, enda tók hann að sumu leyti vel í þetta, og hann myndi fljótt geta gefið upplýsingar um, hversu mikið þyrfti að hækka iðgjöldin til þess að standast þennan aukna kostnað. Síðast, þegar slysabæturnar voru hækkaðar um 50%, þurfti enga iðgjaldahækkun, og nokkurn hluta þeirrar hækkana, sem nú er farið fram á, er hægt að fá af tekjum slystrygginganna án þess að hækka iðgjöldin. Mér finnst þetta mál liggja svo ljóst fyrir, að það væri hægt að samþ. þetta án nokkurra frekari rannsókna. Þegar síðasta hækkun fór fram, var það gert umr.laust, og að því er ég bezt veit, mælti enginn í móti.