04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í D-deild Alþingistíðinda. (1393)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Baldvinsson:

Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að það hafi versnað útlitið síðan þing kom saman í vetur og till. var til umr. En ég held, að ríkinu væri fyrir það eins hollt að halda uppi sæmilegum kaupgreiðslum við starfsmenn sína eins og að byrja nú að draga af þeim. Það er búið að greiða starfsmönnum ríkisins kaup fyrir 8 mán. af þessu ári með dýrtíðaruppbót, sem stj. sjálf hefir ákveðið upp á eigin ábyrgð, sem sé 40%, og sem brtt. ætlazt til að verði greidd einn mán. í viðbót. Þá er búið að greiða af þessum 200 þús. kr., sem dýrtíðaruppbótin er hærri en hún ætti að vera eftir útreikningi hagstofunnar, um 150 þús., svo að útgjöldin til nýárs eru um 50 þús. Ég býst við, að það yrði meiri sparnaður fyrir ríkið að greiða þessa uppbót en að hafa af starfsmönnum þessa auknu dýrtíðaruppbót, því að ríkið fengi vafalaust með því betra verk frá þeim. Ég veit ekki, hvernig starfsmenn myndu taka í þetta. Það er bannað með lögum að gera verkfall, svo að ekki verður ráðizt í það. Mér þætti ekki ólíklegt, að samband þeirra gerði einhverjar ráðstafanir til þess að verjast því, að ríkið á þessum erfiðu tímum, líka fyrir starfsmennina, færi að draga úr kaupi þeirra, sem þeir hafa gert sér vonir um að geta haldið. Það er ekki að ástæðulausu, að starfsmenn hafa gert sér vonir um að geta haldið þessari dýrtíðaruppbót, þegar stj. hefir borið það fram á tveim þingum, og sérstök ástæða var til að ætla, að það gengi fram, þar sem fyrrv. fjmrh., sem er framsóknarmaður, bar þetta fram. Það lítur út fyrir af aðstöðu hæstv. forsrh., að hann hafi ekki breytzt fyrr en nú við þessa umr. Hann leggur till. fyrir þingið, sem kom saman 15. júlí síðastl., og þá voru ástæður svipaðar og nú. Hann hefir ekki snúizt fyrr en nú á þessum fundi í Ed. í dag, því að hann bar fram þáltill., og það getur ekki hafa verið með öðrum hug en að hún gengi fram.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þinginu hefði ekki unnizt tími til að endurskoða launalögin. Ég held ekki, að þessi hv. þm., sem annars er orðvar og gætinn, hafi nokkurntíma á þingi farið með eins mikla rangfærslu og þetta. Að þinginu hafi ekki unnizt tími síðan 1925 til að endurskoða lögin, er bara tóm vitleysa. Sannleikurinn er, að það hefir ekki þorað það, og þorir það ekki ennþá. Það hafa komið margar till. frá starfsmönnum ríkisins, að fá einstaka þm. til að koma þessu máli áleiðis til athugunar, að endurskoða launalögin og fá fastan grundvöll, sem launagreiðsla starfsmanna byggðist á.

Þó að ég játi með hv. frsm. meiri hl. og hæstv. forsrh., að ástandið sé erfitt, fjárhagsástæður landsmanna mjög erfiðar, þá ætti afkoma ríkissjóðs að vera mjög sæmileg. Hann ætti því ekki að ganga á starfsmenn ríkisins, því að hann munar ekki mikið um 50 þús., sem hann á að greiða til nýárs, en starfsmenn ríkisins, sem eru í hinum lægra launaða flokki, munar mikið um minna en 1/10 af launum sínum. Það er mikið fyrir þá, sem hafa innan við 3 þús. kr., og það eru margir, símamenn og póstmenn o. fl. Mér finnst, að þó maður játi erfiðu tímana, þá sé ekki ástæða til að fella þessa kaupgreiðslu til starfsmanna. Ég mun greiða atkv. með því, að stj. haldi áfram að greiða þessa dýrtíðaruppbót fram til næsta þings, og láti það þing ganga endanlega frá launamálum starfsmanna ríkisins. Ég mun greiða atkv. með till. stj. og styðja stj. í þessu máli eins og hv. 1. landsk.