04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í D-deild Alþingistíðinda. (1395)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki viðurkenna, að hann væri réttmætur sá samanburður, sem ég gerði um hreyfingu á tímavinnukaupi hjá því opinbera og starfsmannakaupi annarsvegar, og kaupi því, sem hér um ræðir, hinsvegar. Hann gat náttúrlega ekki hnekkt þessu með rökum og sló svo fram þeirri spurningu, hvort tímavinnukaupið væri tryggt. Ég býst við, að svipaðar ástæður séu um það, hvort sem drepið er niður á árinu 1931 eða 1928. Ég sé ekki orðnar þær breyt. á aðstöðu milli þessara tveggja tegunda af kaupgreiðslum á seinni árum, sem geri það réttmætt, að annað kaupið lækki á sama tíma og hitt hækkar. Hv. þm. talaði einnig um það, að starfsmenn myndu segja af sér. Það er náttúrlega nokkuð, sem ekki nær neinni átt. Þeir, sem hafa mánaðarkaup, eru annaðhvort að heita má undantekningarlaust menn, sem hafa orðið að afla sér sérmenntunar í starfi sínu, sem þeir menn, sem vinna tímavinnu hjá því opinbera, hafa ekki þurft, og það getur ekki verið um það að ræða að rugla þessum flokkum saman, þannig að hinir mánaðarlaunuðu starfsmenn hætti störfum sínum og fari í tímavinnu og einhverjir, sem hafa stundað tímavinnu, komi og taki að sér störf þeirra manna, sem eru á mánaðarlaunum. Þetta getur ekki komið til greina. Ég stend því fast á því, að ósamræmi sé í þessum hreyfingum á kaupgreiðslum, sem ég nefndi, og ósamræmið eykst, ef brtt. meiri hl. verður samþ.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, þarf ég ofurlitlu að svara. Hann sagði, að óvíst væri, hverjum af tekjum sínum ríkið fengi að halda. Ég get ekki skilið, að það komi til greina í sambandi við þessa till., því hún tekur til yfirstandandi árs, og ég veit ekki til, að það standi til að breyta tekjulöggjöfinni, og tekjur þessa árs hafa ekki verið minni en 1930, sem vitanlega var gott tekjuár. Þá talaði hann um það, að hann kærði sig ekki um stuðning minn í þessu máli, hefði heldur kosið hann til fjárútvegunar handa ríkissjóði. Ég get vel trúað því, að hann hefði heldur viljað það, því það hefir reynzt svo, að þessari stj. þætti þægilegt að fá ríkisfé á milli handanna og ráðstafa því svo á ýmsan hátt, viðeigandi og óviðeigandi, sem maður er daglega minntur á með þessari óviðeigandi skýrslu um framkvæmdir ríkisins, sem ráðuneytið lagði hér á þingborðin fyrir nokkru. Ég tel þetta liggja fyrir utan málefnið, en ætla mér að tala um það síðar í sambandi við annað mál.

S. Í. S. hefir ætlað að lækka hjá sér kaup mánaðarlaunaðra embættismanna. Ég vil minna hæstv. forsrh. á atriði, sem eiginlega má ekki ganga framhjá í umr. um þetta mál, en mér láðist að taka fram í fyrri ræðu minni. Dýrtíðaruppbótin, sem hér um ræðir, er yfirleitt miðuð við laun samkv. launalögunum frá 1919. En þau laun eru svo miklu lægri heldur en laun yfirleitt hjá þeim, sem taka mánaðarlaun, að það getur með engu móti verið réttlátt að lækka dýrtíðaruppbót á þessum launum samkv. launalögunum frá 1919 úr því sem nú er, jafnvel þó að réttlátt þyki að lækka laun annara starfsmanna, sem hafa fengið laun sín ákveðin eftir hærri stiga en launalögin frá 1919 miða við, hjá S. Í. S. eða öðrum. Ég hefi tekið það fram áður og skal minna á það enn, að þingið hefir á seinni árum stofnað fjölda af nýjum stöðum fyrir hið opinbera og ákveðið þeim laun. Fyrir þessar nýju stöður og störf hafa laun alltaf verið ákveðin mun hærri en laun tilsvarandi embættismanna, sem taka laun eftir launalögunum frá 1919. Og þetta heldur áfram ennþá. Í stjfrv., sem lögð eru fyrir þetta þing, er farið fram á að stofna nýjar stöður með miklu hærri launum en í tilsvarandi stöðum frá 1919. Ég skal minna hæstv. forsrh. á eitt frv. frá honum sjálfum, frv. til l. um ríkisbókhald og endurskoðun. Þar er gert ráð fyrir einum nýjum starfsmanni í fjármálaráðuneytið. Það starf útheimtir að vísu venjulega almenna menntun og í mesta lagi 2 ára sérnám. Laun handa þessum manni eru í frv. ákveðin hærri en laun skrifstofustjórans í fjármálaráðuneytinu . Skrifstofustjórinn tekur laun eftir launalögunum frá 1919. Hvar sem stungið er niður, eru laun frá 1919 svo lág, að þau þykja ekki boðleg, þegar verið er að stinga upp á launakjörum handa nýjum opinberum starfsmönnum, þó að miklu minni menntunarkröfur séu gerðar en til ýmsra þeirra, sem taka laun eftir launalögunum frá 1919. Þess vegna kemur það ranglátlega fyrir sjónir, þegar stungið er upp á að lækka dýrtíðaruppbót embættismanna og starfsmanna yfir höfuð. En mér fyndist gæti komið til álita að gera jöfnuð og lækka dýrtíðaruppbót fyrir þá starfsmenn, sem taka laun sín eftir sérstökum lögum, sem sett hafa verið nú á seinni þingum, síðan sú tízka varð alveg föst að setja hærri laun í nýjar stöður en þeirra, sem samsvara launastiganum frá 1919.