04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (1397)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þetta verða aðeins örfáar aths., og þá einkum viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. þm. sagði.

Hv. þm. vildi halda því fram, að ég hefði breytt um skoðun í þessu máli, og þá helzt á þessum fundi, þar sem hæstv. fjmrh. bar till. fram fyrir hönd stj. á vetrarþinginu. En hér er þess að gæta, að það eina, sem fyrir stj. lá í þessu máli, var samþykkt Ed. frá í vetur. Mér þótti ekki taka því að gera formlegar breyt. á till., heldur bera hana fram eins og hún lá fyrir frá vetrarþinginu.

En þar sem hv. 2. landsk. þm. beindi því til okkar hv. frsm. meiri hl. og mín, að við hefðum ekki þorað að endurskoða launalögin, þá vil ég svara því, að ég lít svo á, að þeir flokkar, sem ekki hafa þorað það, séu andstöðuflokkar stj., og þá e. t. v. helzt flokkur hv. 2. landsk.

En því er nú svo háttað, að það er ekki viðlit að endurskoða launalögin meðan peningarnir hafa ekki verið verðfestir. Meðan svo er ekki, geta þær breyt. komið fyrir þegar minnst vonum varir, sem gera með öllu ónýtt það verk, sem í endurskoðuninni liggur. Nú dettur í rauninni engum annað í hug en að verðfesta eigi peningana. En þeir þora það ekki sumir. Og því beini ég til hv. 2. landsk. þm., sem veitti stj. hlutleysi á síðasta kjörtímabili, en sem aldrei hefir þorað að fylgja stj. að þessu máli, af því að blað flokks hans barðist einu sinni á móti verðfestingu krónunnar, en heimtaði í þess stað hækkun hennar. Hefir hann þar með látið undir höfuð leggjast að stuðla að því að skapa grundvöll undir launakjör starfsmanna yfirleitt.

Hv. 1. landsk. þarf ég litlu að svara. Hann komst svo að orði, að það væri ekki réttmætt að lækka dýrtíðaruppbótina, eins og nú stæði á. Hér er ekki um það að ræða að lækka hana, heldur hækka, því lögum samkv. er hún nú 30%.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um laun lækna við landsspítalann, þá gaf hann í skyn, að þau hefðu ekki verið borin undir þingið. Mig minnir, að bráðabirgðaákvörðun væri tekin um þetta um miðjan vetur. En í fjárlagafrv. var þetta lagt fyrir þingið. Það hefði getað breytt þessu. Nú eru fjárl. til 3. umr. í Nd., og hefir n. ekki séð ástæðu til að breyta þessu.