04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (1398)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. meiri hl. gerði þá áætlun, að dýrtíðaruppbótin hefði numið 230 þús. kr. síðastl. ár. Þá áætlar hann sparnaðinn við það að fella hana niður 65 þús. kr. það sem eftir er ársins. En þetta er ekki rétt. Það er ¼ árs, sem um ræðir, og það verða tæp 60 þús., eða öllu heldur 58 þús. Það skiptir nú litlu um þessar 7 þús., sem á milli ber, en þessi fjárhæð, 58 þús. kr., gerir ríkissjóði ekki mikið til eða frá, hvort greidd er eða ekki. En hann fær betri starfsmenn og enga truflun á störfum, ef þetta verður greitt. Því að þó að ég fari ekki að æsa embættismenn til mótmæla út úr þessu, sem ég þó ekkert fullyrði um, þá geri ég ráð fyrir, að þeir telji sig sjálfir vonsvikna, og geri sér ekki að góðu, ef þeir verða sviptir þessu.

Fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir 40% dýrtíðaruppbót. Samþykkt þessarar till. gerir því hvorki til eða frá. Stjórnin hefði heimild til þess að greiða þetta samkv. fjárl. En ef till. aftur á móti yrði felld, eins og hv. 2. þm. S.-M. vill, þá gerði þingið þar með persónulegar kröfur á hendur þeim fjármálaráðherrum, sem bera ábyrgð á því, að þessar greiðslur hafa farið fram.

Þá þóttist sami hv. þm. vera ótrauður við endurskoðun launalaganna. En ef athugað er, hvernig því máli hefir farnazt síðan 1925, þá er það allt annað en hugrekkið, sem uppi verður á teningnum, — það er hræðslan.

Það kom greinilega fram hjá hæstv. forsrh., að launalögin gætu ekki staðizt eins og þau eru nú. Og hann og fleiri eru á þeirri skoðun, að launagreiðslur hljóti að hækka þegar þau verða endurskoðuð. Þetta hefir þingið ekki þorað að fara í.

Þá vék hæstv. forsrh. að hugleysi mínu og flokksmanna minna, að þetta hefði ekki komizt í framkvæmd af því, að við hefðum ekki þorað að hjálpa honum með verðfestingu gjaldeyrisins. Mér þykir vænt um þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., því að hún sýnir greinilega, að við höfum þó ekki dansað algerlega eftir pípu Framsóknarflokksins á þessu tímabili, eins og stundum hefir verið á okkur borið. En vel get ég unað við, þó að sagt sé, að við höfum í þessu efni ekki viljað ganga á móti skoðunum okkar.

Hinsvegar er það vitanlegt, að Íhaldsflokkurinn — eða Sjálfstæðisflokkurinn, svo maður geri honum ekki rangt til með nafngjöfum — hefir ekki þorað að ráðast í neitt slíkt. Þar hafa skoðanir verið uppi um verðfestingu peninga, þó þær séu ekki nákvæmlega hinar sömu og hjá hæstv. forsrh.

Annars vildi ég mega stinga því að hv. frsm. meiri hl., að athuga það til næstu umr., að þingið á kröfu á hendur fjmrh. flokks hans fyrir það, sem greitt kann að hafa verið í heimildarleysi til þessa dags af fé því, er hér ræðir um, ef till. verður felld.