04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (1399)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég get nú fyrir mitt leyti að mestu látið umr. falla niður. En ég vil þó nota þetta tækifæri til þess að leiðrétta misskilning hjá hv. 1. landsk. þm. út af því, sem ég skaut fram, hvort tímavinna mundi almennt vera eins trygg eins og störf í þjónustu hins opinbera. Þessi hv. þm. virtist vilja skilja þessa spurningu á þá leið, hvort launagreiðsla fyrir tímavinnu mundi vera jafntrygg. Oftast mundi nú það vera. En ég átti ekki við það, heldur hitt, að þó maður geti fengið tímavinnu með köflum fyrir segjum kr. 1,36 um klukkust., hvort það væri tryggt, að hann bæri upp jafnmikið fé eins og starfsmaður hins opinbera, þó lág laun hefði. Ástæðurnar gera það að verkum, að þó hann fái hærra kaup þá kl.tíma, sem hann getur unnið, þá verður atvinnan stopulli og raunverulegar tekjur minni. Þetta vildi ég leiðrétta, svo að það yrði ekki misskilið.

Þá vík ég örfáum orðum að hv. 2. landsk. þm. Hann sagði, að ég hefði verið að gefa í skyn, að fella ætti till. Ég sagði, að það gæti komið til mála, en að ég vildi, að till. gengi til síðari umr. Út af þessu dró hann þá ályktun, að stj. bæri ábyrgð á því fé, sem til þessa hefði verið greitt umfram lögmælta dýrtíðaruppbót. Rétt áður var hann búinn að lýsa yfir því, að stj. hefði haft fulla heimild til þess að gera þetta. Ef fyrri ályktun hans er rétt, þá er sú síðari augljóslega röng. Þessi till. hefir ekki aðrar verkanir en þær, að frá þeim tíma, sem hún væri felld, væri stj. óheimilt að halda þessum greiðslum áfram. Ég vil segja hv. þm. það, að hann hræðir hvorki mig eða aðra með slíku tali frá því að fella till. En það er ekkert vafamál, hvernig sem fer með þessa till., að stj. hefir haft fulla heimild til þess að greiða þessa dýrtíðaruppbót.