17.07.1931
Neðri deild: 3. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (14)

1. mál, fjárlög 1932

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. G.-K. gat þess, að hann ætlaði sérstaklega að víkja að einu atriði í umr., útgáfu þessarar oftnefndu skýrslu. Ég tel ekki ástæðu að fara að ræða þetta nú við hv. þm., þar sem hann lýsti yfir því mjög kröftuglega með sínum allra sterkasta málróm, að hann ætlaði að stefna mér fyrir bókina. Það er „praktiskara“ að tala við hann á þeim vettvangi, sem hann kaus, frammi fyrir dómstólum; mun ég þar mæta honum sem á hverjum öðrum vettvangi. Að fara því að draga þetta frekar inn í þessar umr., tel ég algerlega óþarft.

Í upphafi sinnar ræðu kom þessi hv. þm. með smellna samlíkingu, á sinn mælikvarða. Hann talaði um, að ég hefði mjólkað glamrinu. Ég hélt nú, að það kæmi annað fram, þegar verið er að mjólka; en hvað um það, — þetta um glamur var góð yfirskrift yfir það, sem kom fram síðar í ræðu hv. þm. G.-K. Það var ekkert annað en glamur.