04.08.1931
Efri deild: 20. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (1403)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Það var tilviljun, að ég bar niður á samanburði á starfslaunum manns, sem stungið er upp á í stjfrv., sem nú liggur fyrir, og skrifstofustjórans í stjórnarráðinu. Það mætti á sama hátt taka til samanburðar hvaða aðra tegund starfsmanna, sem taka laun eftir launalögunum frá 1919. Alstaðar eru settar upp nýjar stöður með hærri launum og ekki með meiri kröfum um menntun, en oft minni. Hæstv. forsrh. viðurkenndi, að laun skrifstofustjórans væru svo lág, að þau gætu ekki staðizt. En þó eru hér um bil allir embættismenn með lægri laun en skrifstofustjórinn, en þrátt fyrir það er farið fram á að skerða laun þeirra. Ef litið er á launalögin frá 1919 og núv. ástand, þá er það mikið neyðarástand, sem flestir opinberir starfsmenn verða að lifa í, nema þeir geti séð sér fyrir aukatekjum eða ríkið sjái þeim fyrir aukatekjum á svipaðan hátt og gert hefir verið með skrifstofustjórann. En það ber bara vitni um, að ekki sé réttmætt að lækka dýrtíðaruppbótina. Það er bara orðaleikur hjá hæstv. forsrh., að ekki sé farið fram á að lækka dýrtíðaruppbótina, heldur hækka hana. Till. fer fram á að halda óbreyttri dýrtíðaruppbótinni frá því, sem hún hefir verið á 3 undanförnum árum, og brtt. að lækka hana úr því marki frá 1. okt. næstk.