06.08.1931
Efri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (1409)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Hv. 2. þm. Eyf. vildi ekki kannast við það, að hann hefði snúizt móti málinu, og ber það fyrir sig, að hann hafi greitt atkv. með till. við fyrri umr. En hann snerist á móti því engu að síður, því að hann greiddi atkv. með brtt., sem fór fram á það, að dýrtíðaruppbótin skuli aðeins greidd til 30. sept. næstk. Hv. þm. hefir því engu að síður snúizt í málinu.

Þá sagði hv. 2. þm. Eyf., að það væri undarlegt, ef menn mættu ekki hafa mismunandi skoðanir á þessu máli. Á það hefi ég aldrei minnzt, heldur var ég að sýna fram á, hve skoðanaskiptin hefðu orðið tíð hjá hv. 2. þm. Eyf. Mig furðar á því, að menn skuli geta haft svo margar mismunandi skoðanir á sama málinu, og það á jafnskömmum tíma og hér er um að ræða.

Hv. þm. sagði, að ekki yrði séð af fylgi málsins hér í hv. d., hvaða fylgi það hefði í Framsóknarflokknum. Ég verð nú að álíta, að þegar allir hv. framsóknarmenn hér í deildinni eru á móti málinu, þá muni ekki blása mjög byrlega fyrir því meðal flokksmanna hv. þm. í Nd.