06.08.1931
Efri deild: 22. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (1410)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Einar Árnason:

Það er næstum því broslegt, hve mikið kapp hv. þm. Snæf. leggur á það að tala um, að ég hafi snúizt í þessu máli. Það er svo um þetta mál sem flest frv., sem fram eru borin, að hægt er að fallast á smábrtt. við það. Það eru flestir hv. þm. vanir að gera, og verður þó alls ekki borið það á brýn, að þeir snúist þar með á móti málunum. Þetta er hv. þm. Snæf. samt að bera mér á brýn. Með sama rétti mætti þá benda á, að þessi hv. þm. hafi snúizt í fjölda mörgum málum. En það nær bara engri átt að kalla það svo, þó gengið sé inn á brtt. við mál. Ég neita því algerlega, að ég hafi nokkurntíma snúizt í þessu máli. Þegar ég greiddi uppbótina, þá áleit ég, að það væri vilji þingsins, og ég hafði enga ástæðu til þess að ætla annað en það héldi við sínar fyrri samþykktir í þessu efni.