21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í D-deild Alþingistíðinda. (1419)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt., sem á við brtt. þá, sem fylgir nál., þannig, að mín brtt. getur því aðeins komið til atkv., að sú brtt. verði samþ.

Í nál. er lagt til, að aukauppbót á allar launagreiðslur embættis- og starfsmanna ríkisins falli niður síðasta sept. þessa árs. Það er að vísu svo, að það hefir nokkuð til síns máls, að aukadýrtíðaruppbót sú, sem greidd hefir verið undanfarin ár, væri hærri en eftir reikningi hagstofunnar, vegna þess að svo mikið ósamræmi er orðið á kaupgreiðslu í landinu. En það er líka mikið rétt í því, að þessir starfsmenn ríkisins, þeir sem það geta með nokkru móti, taki einnig á sig nokkuð af erfiðleikum kreppunnar. En það mun nú vera þannig, að margir af embættis- og starfsmönnum ríkisins eru svo lágt launaðir, að það er með öllu ófullnægjandi í kreppunni nú, því að í góðærinu að undanförnu hafa margir þeir verst launuðu af starfsmönnum ríkisins vegna launakjara sinna safnað skuldum, enda þótt þeir hafi lifað sparlega. Kreppan gengur því harðara yfir þá en aðra embættismenn að því leyti, að nú á þessum erfiðu tímum verður gengið fast eftir skuldum þeirra, og leggst kreppan því þyngra á þá en aðra starfsmenn ríkisins. Ég hefi því farið fram á það í þessari brtt., að þeir, sem hafa 2500 kr. árslaun eða minna, fái að halda aukauppbótinni þetta ár út.

Þeir, sem hafa við þau laun að búa, sem brtt. mín nær til, eru í raun og veru lægra launaðir en flestir eða allir starfsmenn og verkamenn, sem vinna eftir kauptaxta verkalýðsfélaganna, og er því ekki rétt, þegar kreppan gengur yfir, að ganga nærri þessum mönnum. Þeir hafa lítið borið úr býtum af arði góðæranna, og því væri órétt, að kreppan legðist þyngra á þá en aðra.

Ég vona því, að hv. þdm. sjái, að þessi brtt. er sanngjörn. Hv. 2. þm. Skagf. hefir lýst yfir stuðningi sínum við brtt., og ég vænti, að einnig aðrir hv. þdm. sjái, að hér er um réttlætismál að ræða.