21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (1421)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. Reykv. lét í ljós furðu sína yfir því, að ég skyldi hafa borið þessa till. fram í því formi, sem hún er nú í, vegna þess að margir hv. þm. úr Framsóknarflokknum hefðu viljað samþ. brtt. við hana. Út af þessum ummælum hv. þm. vil ég geta þess, að það var gert að reglu um öll þau mál, sem fram voru borin á sumarþinginu og lágu fyrir vetrarþinginu, að koma fram með þau eins og þau frv. og tillögur voru, þegar vetrarþinginu lauk. Þessi till. hafði fengið afgreiðslu Ed. á vetrarþinginu í þeirri mynd, sem hún var borin fram nú, og þótti því rétt að fylgja sömu reglu með hana og önnur þau mál, sem borin voru fram á sumarþinginu og höfðu legið fyrir vetrarþinginu.

Þá vil ég segja örfá orð út af því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði. Mér þykir það nokkuð rík krafa, sem hann kom með, að stj. ætti ekki að koma með aðrar till. eða frv. en þau, sem stjórnarflokkurinn vildi samþ. óbreytt. Hann hefir setið í þremur ráðuneytum og bar oft fram stjfrv., sem flokksmenn hans breyttu og hann greiddi svo atkv. með. Eins er með þetta. Hér er ekki um annað að ræða en brtt. frá stjórnarflokknum. Það nær engri átt, að sú krafa sé gerð til stjórnarflokksins, að hann samþ. öll stjfrv. óbreytt, en ráðh. berji höfðinu við steininn og sé á móti öllum brtt. við frv.