21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í D-deild Alþingistíðinda. (1427)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Steingrímur Steinþórsson [óyfirl.]:

Ég hefi ásamt hv. 1. þm. Eyf. skrifað undir nál. á þskj. 393 með fyrirvara, og það var með tilliti til þess, að við vildum ekki samþ. till., nema aukauppbót fengist á lægri laun. Við munum því greiða atkv. með till. hv. 2. þm. Rang. Fleira hefi ég svo ekki um þetta að segja.

En út af því, sem komið hefir fram hjá hv. 4. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykv., að ef til vill væri skylda að greiða 40% dýrtíðaruppbót, af því að svo væri ákveðið í fjárl., þá skal ég ekki deila um það, sízt við hv. 2. þm. Reykv. En ég get þó ekki skilið, að það geti komið til mála, því það er beint tekið fram í 24. gr., að ef l. verði samþ., sem hafa gjöld í för með sér, breytist upphæðirnar samkv. því. Ég held því, að þetta geti ekki komið til greina.

Hvað snertir almennar hugleiðingar hv. 2. þm. Reykv. um launamálið, þá er ég honum að miklu leyti sammála um, að í því ástandi, sem nú er, sé svo mikið ósamræmi, að því verði ekki unað til lengdar. Embætti, sem stofnuð hafa verið á seinni árum, eru svo miklu hærra launuð en eldri embætti, að það er ómögulegt, að menn geti unað við þetta ástand; það verður að breytast. Launamálið hlýtur því að verða tekið til athugunar bráðlega. Að því leyti er ég ræðu hv. 2. þm. Reykv. sammála.

Annað hefi ég ekki um þetta mál að segja.