21.08.1931
Neðri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (1429)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Einar Arnórsson:

Hæstv. fjmrh. var alveg óhætt að tala á undan mér; ég ætlaði ekki að fara að ybbast neitt við hann.

Það er alveg eins og ég sagði, að launaupphæðir fjárl. eru ákveðnar með 40% dýrtíðaruppbót. Það stendur ekki, a. m. k. ekki fullgreinilega, hvernig beri að skilja þetta, en ég verð að álíta með hv. 4. þm. Reykv., að það feli í sér heimild fyrir stj. til að greiða a. m. k. þessa upphæð. Það eru liðir til í fjárl., sem ég býst við, að varla séu búnir út með þetta sama fyrir augum, að borga lægra en tilskilið er. Ég skal nefna t. d. 39. lið 15. gr., til Einars Jónssonar myndhöggvara; þar er frumupphæðin 5000 kr., en með verðstuðulsuppbót 6800 kr.; það er m. ö. o. 40% dýrtíðaruppbót, eða 1800 kr. Nú geri ég ráð fyrir, að þessi maður mundi fá sér dæmdar þessar 1800 kr., ef það ætti að draga þær af honum. Það er a. m. k. ekki ósennilegt.

En út af aths. hv. 1. þm. Skagf., þar sem hann var að skírskota til 24. gr. fjárl., þá er hún nú ekki alveg rétt skilin hjá honum. Þar er talað um, að „ef lög þau verða staðfest, er afgr. hafa verið frá Alþingi 1931 og hafa í för með sér tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð, breytast fjárhæðirnar tekju- og gjaldamegin samkv. þeim lögum“.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að ef lög mæltu fyrir um aðra fjárveitingu eða útgjöld, yrði stj. að fylgja þeim, þó það væri ekki samrýmanlegt við fjárl., en þál. breytir ekki fjárl. Það, sem því þál. slík sem þessi gæti gert, væri að skýra það, sem vafi er á. Hún gæti orðið stj. til skilningsauka um skilning á vafasömum fjárlagaákvæðum. En það sýnist býsna hjákátlegt að áætla fjárl. með 40%, dýrtíðaruppbót og afgr. þau héðan í dag með það fyrir augum, að hún verði greidd, og samtímis að setja svo af stokkunum þáltill. um, að hún skuli vera minni en þetta. Það hefði þá verið nær að áætla í fjárl. með vísitölunni eins og hún væntanlega verður. Ef það kemur svo fyrir, að till. verður samþ. og dýrtíðaruppbótin greidd með 30% eða 25%, eða einhverju öðru, þá er auðséð, að það getur orðið mikill tekjuafgangur á þessum lið á árinu 1932. (Forsrh.: Væri það svo mjög slæmt, þó það yrði tekjuafgangur?). Það er nú allt eftir því, hvernig honum væri varið; svo heimskulega má verja honum, að það væri slæmt. En ef hann væri lagður í sjóð og geymdur, þá væri það náttúrlega gott; nú eða ef honum væri varið til einhverra þarflegra hluta, þá væri það líka gott. En hitt er víst, að við afgreiðslu fjárl. var ekki gert ráð fyrir gróða á þessum lið. Og það kynni að róa eitthvað samvizku veikra sálna, sem hræddar eru við tekjuhalla á árinu 1932.