22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (1440)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Jón Þorláksson:

Ég vil leiða athygli hæstv. fjmrh. að því, að ef hann lítur svo á, að stj. sé að því er snertir greiðslu þessa algerlega bundin við ákvæði launalaganna, þá er ekki hægt að breyta því með þáltill., og er því þýðingarlaust að samþ. till. þessa. En ég held, að skilningur hæstv. ráðh. sé nokkuð einstrengingslegur, því að það skiptir ekki litlu máli, ef meira er veitt í fjárl. en önnur lög mæla fyrir. Get ég bent á dæmi um það, að meira hafi verið greitt en launalög ákveða án þess að lögunum hafi verið breytt. Þess vegna verð ég að líta svo á, að hæstv. stj. hafi í fjárveit. fjárl. 1932 haft heimild til að greiða dýrtíðaruppbót eins og greidd hefir verið það sem af er þessu ári. Mun það því ekki verða átalið, þó að stj. haldi þeirri reglu til áramóta. En þessi þáltill. felur það í sér, að frá 30. sept. verði hvorki fylgt ákvæðum launal. né fjárl. Verður sumum starfsmönnum greitt eftir fjárl., en öðrum samkv. launal. Get ég ekki fellt mig við þetta. Vil ég, að til ársloka verði fylgt sömu reglu um greiðslu og það sem af er árinu. Mun ég því greiða atkv. á móti þáltill.