07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1452)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Nál. minni hl. var ekki tilbúið við þessa umr., en ég vænti, að það geti komið við 3. umr. málsins. Ég vil aðeins taka það fram, að ég er mótfallinn þessu frv., og það fyrst og fremst af fjárhagslegum ástæðum fyrir hönd ríkissjóðs.

Þegar litið er á tekjur ríkissjóðs af tóbaki fyrir og eftir að tóbakseinkasalan var tekin upp, þá kemur í ljós, að það dregur úr notkun og innflutningi vörunnar. a. m. k. löglegum innflutningi þegar einkasalan kemst á. Þegar hún er lögð niður í árslok 1925, er tollurinn hækkaður um það, sem nam nokkrum hluta álagningarinnar. En þá jukust tekjur ríkissjóðs, og þó nam tollurinn ekki nema nokkrum hluta álagningarinnar, og sumar tóbakstegundir lækkuðu í verði. Ef nú er til þess hugsað að halda áfram sama tolli og á var lagður 1925 og bæta svo álagningu ofan á, þá er það ekki hægt með öðru en því, að hækka verð vörunnar, og væri hugsanlegt að ná tekjum á þann hátt, ef menn tryðu því, að þessi vara þyldi meiri álagningu en nú er. En ég er sannfærður um, að hækkun verðs mundi leiða til þess að draga úr neyzlunni, og yrði þá af því enginn tekjuauki, heldur tekjurýrnun. Ef menn vilja fá auknar tekjur af tóbakinu, lægi betur við að hækka tollinn ofurlítið.

Sérstaklega er það vitanlegt, að á fyrsta ári, sem einkasalan starfaði, myndu tekjur minnka stórkostlega. Það kemur til af því, að þegar birgðir þær, sem til eru í landinu, eru færðar saman á eina hönd, þá dregur mjög úr innflutningi. Það kom mjög ljóst fram í fyrra skiptið sem einkasalan var sett á stofn. Þessi tekjurýrnun kæmi þá fyrst og fremst niður á árinu 1932, sem verið er að setja fjárlög fyrir á þessu þingi. En nú þykir mjög tvísýnt, hvort hægt verði að veita fé til mjög nauðsynlegra framkvæmda, sem áætlaðar eru, og virðist þá allhæpið að leggja það til að skerða tekjustofna ríkissjóðs.

Ég þarf ekki frekar að ræða þetta nú, en geymi til 3. umr. að leggja fram þær tölur, sem sanna staðhæfingu mína um það, að ekki sé hentug leið til tekjuaukningar að taka upp einkasölutilhögun. Og ég mun þá auk þess koma einnig að öðrum atr., sem í mínum augum gera það mjög varhugavert að taka upp einkasölu.