07.08.1931
Efri deild: 23. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Ég stend aðallega upp til þess að mótmæla þeirri fullyrðingu hv. 1. þm. Reykv., að mér sé fullvel kunnugt um, að vissir landshlutar hafi aflað sér tóbaks á landsverzlunartímunum án þess að skipta við Landsverzlun Íslands. Þessi fullyrðing hv. þm. er gersamlega rakalaus uppspuni. Hann mun hér eiga við Austfirðingafjórðung, því að þar er ég kunnugastur. Ég veit aftur á móti ekki til, að hann hafi komið þar nema rétt snöggvast á tveggja ára fresti, og hefir hann því þekkingu sína þaðan næstum eingöngu frá öðrum. Ég hefi sjálfur notað tóbak um margra ára skeið og skipti alltaf vil landsverzlunina, meðan hún var við lýði. Mér er líka kunnugt um, að hver einasta verzlun í mínu byggðarlagi fékk tóbak sitt frá landsverzluninni. Þessar fullyrðingar hv. þm. eru því rakalausar dylgjur og ekkert annað, enda hefir hann skort þekkingu á því í þessum landsfjórðungi, sem snerti hann og hans stöðu frekar heldur en viðskipti héraðsbúa við Landsverzlun Íslands.