22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (1465)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Halldór Steinsson:

Því hefir verið haldið hér fram af nokkrum, að heimild sú, sem í till. felst, væri ekki einasta óþörf, heldur þýðingarlaus, vegna þess að í fjárl. er dýrtíðaruppbótin áætluð 40%, og þá væri ekki einasta nægileg heimild fyrir stj. að greiða launin með 40% uppbót, heldur jafnvel skylda að gera það, þrátt fyrir heimild í þáltill. til þess að gera það ekki fyllilega nema til septemberloka.

Út af þessu vil ég leyfa mér að henda á það, að ef þessi skilningur er réttur, þá hafa þál. þær, sem samþ. hafa verið um hækkun dýrtíðaruppbótar fyrir tvö undanfarin ár, verið fullkomlega óþarfar.

Ennfremur vil ég benda á það, að ef þörf er fyrir þessa þáltill., þá þarf ekki einungis heimild til ársloka 1931, heldur einnig fyrir árið 1932, með því að nú er búið að samþ. fjárlög fyrir þessi ár, og í þeim er dýrtíðaruppbótin áætluð 40%.

Af þessum ástæðum virðast mér þessar skoðanir, sem hér koma fram, með engu móti geta staðizt.

Þá hefir í öðru lagi komið fram nokkur skoðanamunur um það, hvernig bæri að skilja og þá framkvæma vatill., sem samþ. var í Nd. í gær, sem sé síðasta málslið þessarar till. Mér hefir skilizt svo sem hæstv. fjmrh. mundi álíta, að stj. væri heimilt að láta heimildina í síðustu málsgr. ná til allra þeirra, sem eru í 18. gr. fjárl. En nú vil ég benda á, að í þessari málsgr. er þetta aðeins bundið við embættismenn eða starfsmenn ríkisins. Þegar litið er á, hverskonar menn eru í 18. gr., þá fæ ég ekki skilið, að þeir með nokkru móti geti talizt embættis- eða starfsmenn ríkisins. Og því get ég ekki álitið, að í þessari vatill. felist nein heimild um uppbót á 18. gr. hærri en hin lögákveðna dýrtíðaruppbót launalaganna.