12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1470)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Páll Hermannsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 267. Hún er auðskilin, því að hún fer fram á, að tekin séu út ár frv. þessu öll ákvæði um eldspýtur, þannig að aðeins verði um einkasölu á tóbaki að ræða. Ástæðan fyrir því, að ég flyt þessa brtt. er sú, að mér finnst standa nokkuð öðruvísi á um eldspýturnar en tóbakið.

Það er álit margra manna, enda jafnvel vissa fyrir, að heppilegt er að afla tekna handa ríkissjóði með því að taka í einkasölu þær vörur, sem talizt geta munaðarvörur eða eru hátollaðar. Ég ætla ekki að rekja þau rök, sem færð hafa verið fyrir þessu, en mér virðist standa allt öðruvísi á um eldspýturnar. Sú vara er nauðsynleg, enda lágt tolluð, og fæ ég ekki séð, að ástæða sé til að taka þær með frekar en ýmsar aðrar nauðsynjavörur, og því geri ég það að tillögu minni, að öll ákvæði um þær verði niður felld.

Ég skal játa, að ég lít svo á, að tíminn, sem nú stendur yfir, sé mjög óhentugur til að nú verði tekin upp einkasala á tóbaki, m. a. af því, að nú þykir frekar þröngt fyrir dyrum hjá ríkissjóðnum; en vitanlegt er það, að hann verður að leggja fram rekstrarfé handa þessu fyrirtæki til að byrja með. Þar við bætist að ætla má, að fyrir dyrum standi erfiðir tímar, sem líklega hafa í för með sér minnkaða notkun á tóbaki. Þess vegna virðist mér, að ef tóbakseinkasala væri nú tekin upp. mætti vel svo fara, að andstæðingar slíks verzlunarfyrirkomulags fengju þarna vopn í hendur. Ef líkindi eru til, að það muni draga úr innflutningi á þessari vöru, þá verður það á sínum tíma vitanlega vopn í höndum þeirra manna, sem halda því fram, að tóbakseinkasala hljóti alltaf að draga úr innflutningi tóbaks og tolltekjunum, en ég er þó með því, af því að ég álít það varla vansalaust fyrir Framsóknarflokkinn að hafa nú setið í 4 ár að völdum og hafa ekki komið þessu máli fram, og því get ég lokað augunum fyrir hinu og fylgt frv. þessu.

Á það má líka benda, að nú eru allar líkur til, að frv. þetta nái að komast í gegnum þingið, en það er ekki vitað, hvort eins verður jafnvel í náinni framtíð.

Ég vil taka það fram, að ég er ekki trúaður á, að það ættu sér stað meiri tollsvik, ef einkasala kæmist á, því að hinn hái tollur, sem nú er á tóbaki, gefur mönnum sömu tilhneigingu til að komast fram hjá honum. Ennfremur er ég ekki trúaður á, að ekki fáist hæfir menn til að veita þessu fyrirtæki forstöðu, enda mun almennt litið svo á, að menn keppi frekar eftir að komast í þjónustu ríkisins en annara vinnuveitenda. Þetta gæti líka því aðeins átt sér stað, að verzlanir gætu yfirboðið ríkið, en slíkt er ólíklegt, a. m. k. virðist svo, að hjá ríkinu fái færri að vera en vilja.