12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Þeir hv. frsm. meiri hl. og hv. 2. landsk. hafa nú verið, af vanefnum miklum, að reyna að véfengja ályktanir þær, sem ég hefi dregið af skýrslu þeirri sem ég hefi birt í nál. mínu.

Hv. frsm. lagði sérstaka áherzlu á það atr., að tekjurnar af tóbaki hefðu farið vaxandi þau 4 ár, sem einkasalan starfaði. En upp úr þessu er nú ekki mikið leggjandi. Aðalatriðið er hitt, að nokkurnveginn áreiðanlegur samanburður um þetta fæst með því að bera saman meðaltal fleiri ára og athuga svo, hvort á þessum árabilum eru sérstakar ástæður, sem ætla má að hafi haggað niðurstöðunni. Að tekjurnar fóru vaxandi 1922–1925 stafaði einfaldlega af því, að tvö fyrri árin voru heldur erfið búskaparár með litlum tekjum. Fyrsta árið var sérstaklega tekjulítið af ástæðum, sem getið hefir verið um. Svo koma tvö seinni árin, 1924–25, sem voru óvenjuleg góðæri. Hv. 2. landsk. hélt því fram, að fyrri hl. ársins 1924 hefði verið sérstaklega erfiður. En það var í desember 1923 sem fiskverðið loksins hækkaði, og það var það, sem öllu réði og markaði tímamótin frá hinu rýra árferði til hins góða. (JBald: En kaupgeta almennings“ Hefir hún ekkert að segja?). Kaupgeta almennings fer hér að mestu leyti eftir fiskverðinu. Það er því ekki hægt að byggja á þessu neinar ályktanir um, að tekjurnar, undir sömu tilhögun, hefðu farið vaxandi 1926 og einkanlega 1927. Það verður miklu fremur að gera ráð fyrir sveiflum upp og niður, með hvaða tilhögun sem er. En meðaltalið sýnir réttan samanburð, ef það nær yfir rýr ár og góð ár, eins og þessi samanburður gerir.

Það eru varla svaraverð þau ummæli hv. frsm. meiri hl., að við, sem gerum ráð fyrir meiri smyglunarhættu undir einkasölutilhögun. séum að væna fylgismenn þessa frv. um það, að þeir verði örari til smyglunar, ef löggjöfin gengur fram, heldur en annars. Hv. þm. fullyrðir, að þeir muni ekki verða neitt örari á þetta athæfi, þótt lögin verði samþ. Mér hefir satt að segja aldrei dottið í hug að leita að smyglurum í hópi fylgismanna frv., sem fyrst og fremst eru alþm. Það eru allt aðrir menn, sem fást við þetta og þeir munu venjulega ekki vera taldir meðal stjórnmálamanna. En reynsla ýmissa ríkja þykir sýna það, að þeir menn, sem sérstaklega leggja lögbrot fyrir sig, verða yfirleitt fremur hlynntir þeirri tilhögun, sem greiðir fyrir starfsemi þeirra. Það er t. d. fullyrt, að áfengissmyglarar séu styrkustu fylgismenn bannlaga, þar sem þau eru komin á fót.

Þá sagði hv. þm. viðvíkjandi eldspýtunum, að Framsóknarfl. teldi þær vörur hentugar til einkasölu, sem væru í höndum framleiðslu eða söluhringa. Ég er ákaflega hræddur um, að Framsóknarfl. eigi þá stutta samleið með frjálsri verzlun, ef hv. þm. segir þarna rétt frá, því að alkunnugt er, að mikið af framleiðslu heimsins er að færast í það horf, að helztu framleiðsluvörurnar eru hringaðar af framleiðendum eða seljendum, í því skyni að halda verðinu uppi. Og þar á ofan á það að þykja hentugt, að hér á landi komi einkasölur, sem líka eru til þess fallnar að halda verðinu uppi. Yfirleitt er það svo, að öll þessi stefna, sem fer í bága við frjálsa samkeppni og frjálsa verzlun, hvort sem það kallast hringar, sölusamtök, verzlunarsamtök eða einkasölur, miðar, til þess að halda uppi verðinu. Því er eðlilegt, að framleiðendur og seljendur geri með sér slík samtök, en hitt er öfugsnáðaskapur, þegar á að halda fram, að slíkt sé gert í þágu kaupenda og neytenda vörunnar, eins og formælendur einkasölufrv. gera hér á þingi. Það er áreiðanlegt, að einkasala á tóbaksvörum hér og í öðrum löndum er til hagnaðar fyrir þá, sem hafa gagn af háu vöruverði, en það eru framleiðendur og verzlendur með þessa vörutegund, en hinsvegar er hún óhagstæð fyrir okkur, sem erum kaupendur og neytendur vörunnar.

Þá vék hv. þm.brtt. minni og þóttist hvorki hafa skilið hana né útlistun mína. Hann sagðist skilja mig þannig, að þessir forstöðu- og starfsmenn einkasölunnar væru fastir starfsmenn ríkisins, en sagðist hinsvegar álíta, að till. væri einmitt miðuð við það, að þeir væru ekki fastir starfsmenn ríkisins. Ég nefndi ekki þessi orð: fastir starfsmenn ríkisins, en ég vitnaði í hitt, að okkar löggjöf hefir ákvæði um embættismenn og sýslunarmenn, og það er alveg föst skýring á því, hverjir flokkar manna það séu, sem teljast þar undir. Um þessa menn inniheldur löggjöfin skýr og tæmandi ákvæði um það, að þeir megi ekki misnota stöðu sína, sjálfum sér til hagnaðar, og það er sérstakur kafli í hegningarlögunum, 13. kafli, sem mælir fyrir um, hvaða refsingar liggja við þessu.

Nú er um það að ræða, að ríkið er með svona frv. og ýmislegri löggjöf, sem hér er gildandi, að færa út starfssvið sitt, þannig að þar er komið starfsmannahald, sem orkar tvímælis um, hvort heimfærist undir það, sem á lagamáli og m. a. í refsilögunum er kallað embættis- og sýslunarmenn.

Það er töluvert önnur aðstaða, sem þessir starfsmenn við tóbakseinkasöluna hafa, en embættis- og sýslunarmenn yfirleitt. Þeir eru skipaðir á annan hátt. Þeir taka ekki laun sín beint úr ríkissjóði, heldur vinna við stofnun, sem ríkið ábyrgist og ætluð er til þess að afla ríkissjóði tekna. Ég sagði, að því hefði verið slegið föstu með hæstaréttardómi, að starfsmaður við Vínverzlun ríkisins væri sýslunarmaður undir þeim kringumstæðum, sem þar var um að ræða. En það snertir ekki það atr., sem brtt. mín hnígur að, hvort það sé samrýmanlegt við stöðu þessara manna, að þeir noti hana sér til hags. En það er það, sem ég vil fyrir girða með brtt. minni. Með því að ríkið hefir nýlega fært út starfssvið sitt, veit ég dæmi þess, að mönnum er það óljóst, hvort þeir menn, sem starfa utan hins gamla sviðs embættis- og sýslunarmanna, megi nota sér stöðu sína til ávinnings.

Ég álít því, að tímabært sé að reifa þetta mál hér, og ber því fram brtt. við þetta frv., og verður samkv. eðli málsins ekki hægt að skoða hana sem árás á einn eða neinn, þar sem hún er sett í samband við lög um stofnun, sem ekki er til. En það, þótt þessir menn séu kallaðir fastir starfsmenn ríkisins, er orðalag, sem refsilögin, þekkja ekki og er spurning um, hvort ákvæði 13. kap. laganna ná til þeirra.

Hv. 2. landsk. þótti þetta skringileg till. Hann sagði frá því, að einhverjir þm. skildu þessa brtt. svo, að hún væri sneið til þeirra manna, sem störfuðu við tóbakseinkasöluna fyrrv. Mér þykir leiðinlegt, ef þetta er skilið svo, því ég hefi enga ástæðu til að beina slíku að þeim. Hitt er annað mál, að vitanlegt er, að þegar ákveðið var, að einkasalan skyldi lögð niður, fóru þessir starfsmenn einkasölunnar á stúfana til viðskiptasambanda þáv. einkasölu til þess að falast eftir því, að þeir fengju að sitja fyrir viðskiptunum eftir á, þegar einkasalan væri lögð niður. Það má kannske segja, að þetta hafi verið fullmikil áleitni af þessum mönnum, ef þeir eru skoðaðir embættiseða sýslunarmenn ríkisins, en saknæmt er það ekki, enda var þáv. stj. kunnugt um þetta, en hún gerði ekkert í því.

Hv. 2. landsk. lýsti yfir því, að hann hefði borið fram lagafrv., þar sem farið er fram á það sama og hér er gert, en er víðtækara að því leyti, að það tekur til allra starfsmanna ríkisins yfirleitt og starfsmanna sveitarfélaga og samvinnufélaga. Hv. þm. fór fram á, að ég tæki till. mína aftur til þess að greiða fyrir því, að hans frv. nái fram að ganga. Ég viðurkenni, að ástæða sé til að taka af öll tvímæli, um þetta að því er snertir svipaðar stofnanir og einkasöluna. Aftur á móti er ekki þörf á slíkri löggjöf vegna þeirra stétta manna, sem teljast til embættis- og sýslunarmanna, því að ákvæði í alm. refsilögum ná til þeirra, ef þeir nota stöðu sína á þann hátt sér til ávinnings, og liggur refsing við. Og ef nú á að fara setja nýja löggjöf um þetta efni, verður hún að vera í samræmi við ákvæðin í eldri löggjöf, svo framarlega sem ekki er ætlazt til þess, að hún nemi hlutaðeigandi kafla í hegningarlögunum úr gildi. En hv. 2. landsk. hefir ekki tekizt að semja það svo, að hægt sé að samþ. það eins og það kemur fram. Það getur komið til mála að draga starfsmenn samvinnufél. inn í þessa löggjöf, en í núgildandi löggjöf eru strangari reglur um það, ef starfsmenn ríkisins misnota stöðu sína heldur en ef starfsmenn einkafyrirtækja gera það. Er ég ekki viss um nema rétt sé að halda áfram þeim greinarmun.

Ég get því ekki, eins og frv. hv. 2. landsk. er úr garði gert, treyst mér til þess að fylgja því, og vil því ekki taka till. mína aftur, en álít rétt, að hún komi hér til atkv. Hinsvegar skal ég endurtaka það, að ég álít, að rétt sé að setja í lög nauðsynleg ákvæði um það, að þetta nái einnig til starfsmanna við aðrar ríkisstofnanir, sem vafi er á nú, hvort heimfærist undir embættis- og sýslunarmenn í skilningi 13. kap. hegningarlaganna.

Þá vil ég víkja að öðrum atriðum í ræðu hv. 2. landsk. Hann vitnaði í innflutning á súkkulaði á árunum 1922–1925. Það er ákaflega veik röksemd í þessu máli að taka eina lítilfjörlega vöruteg. út úr og bera innflutning á henni saman við innflutning á tóbaki. Það hefðu verið sterkari rök, ef hv. þm. hefði tekið allar munaðarvörurnar í heild. Þess ber og að gæta, að súkkulaði var undir þeim innflutningshöftum, sem giltu hér á landi nokkuð af þessu tímabili, en tóbak var aldrei undir slíkum höftum. Ég held þess vegna, að þessar tvær vöruteg. séu ekki sambærilegar þessi ár.

Þá talaði hv. þm. um merkingu á tóbaksvörum, og að það ætti að koma í veg fyrir smyglun. Hún getur máske hindrað einhverja frá því að smygla, en naumast aðra en úrræðalitla menn, því eins og allir vita, er það ekki varan sjálf, sem merkt er, heldur aðeins umbúðirnar. Það er því hægt að láta hana í tómar umbúðir frá einkasölunni og sér þá enginn á tóbakinu í pípunni eða vindlinum, hvort einkasölumerki hefir verið á umbúðunum eða ekki.

Ég ætla ekki að leggja dóm á, af hverju það hefir stafað, að innflutningur á tóbaki varð minni meðan einkasalan starfaði en bæði fyrir og eftir, og það jafnt í góðu og vondu árferði; árið 1925 var innflutningurinn ekki meiri en 1 kg. á mann í staðinn fyrir 0,9 kg. árið áður. Ég get ímyndað mér, að þetta stafi að nokkru leyti af því, að meiru hafi verið smyglað undir einkasölunni en undir frjálsri verzlun. Einnig getur verið önnur nokkuð gild ástæða til þessa, og hún er sú, að smásöluverzlun með vörur þessar er að ýmsu leyti slælegar rekin undir einkasölufyrirkomulagi en ef verzlunin er frjáls. Smásöluverzlunum var skömmtuð álagning á þessar vörur, svo þeim þótti ekki mikill ávinningur að verzla með þær, sérstaklega þar sem það er tízka að lána vörur út úr búð. Tegundirnar urðu fábreyttar, er innflutningurinn komst á eina hönd, og menn gátu því ekki fengið það, sem þeir vildu fá. En af hverju sem þetta stafar, er það staðreynd, sem ég álít, að muni endurtaka sig að innflutningur á tóbaki varð minni meðan einkasalan var en bæði fyrir og eftir hana. Þetta frv. er einungis borið hér fram sem tekjuaukafrv. fyrir ríkissjóð, en frá því sjónarmiði finnst mér það ekki geta staðizt eftir þessa reynslu. Hitt er annað mál, að ef menn vilja styðja að því, að tóbaksnautn minnki, getur einkasalan komið einhverju til vegar í því efni, en mér skilst, að það sé ekki tilætlunin með þessu frv.