12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Jón Baldvinsson:

Ég ætla aðeins að skýra till. mína á þskj. 274. Tilætlunin er, að tekjur þessar verði látnar renna til verkamannabústaða og til byggingar- og landnámssjóðs. Auk þess sem ríkissjóðstillagið til þessara stofnana stendur að sjálfsögðu eins og fyrir er mælt í lögum þeim, sem um það fjalla. Þetta eru aukreitis fjárframlög. Ríkissjóður innheimtir tekjurnar og greiðir þær aftur eftir ákvæðum þessarar till., ef samþ. verður.

Svo skal ég svara hv. 2. þm. N.-M. því, að eldspýtur eru auðveldari hlutur til verzlunar heldur en vöruteg. þær sem hann nefndi, svo sem konfekt og tízkuvörur. Það er miklu margbreyttari verzlun með slíkar vörur en eldspýtur, því að það er svo einföld verzlun sem hægt er að hugsa sér. Þar er ekki um svo ýkja margar teg. að ræða eins og t. d. er um tízkuvörur; þær breytast ekki eins mikið. Auk þess sem það getur verið áhætta að verzla með tízkuvörur; ef keypt er inn ýmislegt, sem ekki fylgist með „móðnum“, þá fellur það í verði og verður e. t. v. ónýtt og sama er að segja um konfekt. Eldspýturnar eru einfaldar í verzlun og alltaf trygging fyrir því, að þær seljist og hægt að hafa af þeim mikinn verzlunarhagnað eftir verði því, sem nú er á þeim, án þess að þær verði landsmönnum nokkru dýrari, heldur fær ríkið einungis verzlunarhagnaðinn í stað þess að nú fellur hann til kaupmannanna. Sé ég enga ástæðu til þess að fella eldspýturnar niður úr frv., því engin þeirra vöruteg., sem hv. þm. nefndi, er sambærileg við þær að því leyti, hve þær eru handhægar í verzlun.

Hv. 1 landsk. vildi láta leiða af þessari till. sinni, ef samþ. yrði, að starfsmenn við öll sambærileg fyrirtæki væru þá um leið seldir undir ákvæði þessi í einkasölulögunum. En ég verð nú mikillega að efast um lögskýringu hans í þessu efni. Það má frekar gera ráð fyrir hinu sem hann sagði í dag, og þessir starfsmenn féllu undir embættis- og sýslunarmenn eftir alm. lögum, sem um það gilda. En mér finnst það útilokað, að starfsmenn annara fyrirtækja falli inn undir ákvæðin í lögum um einkasölu á tóbaki. Það er tekið skýrt fram að það séu einungis forstöðumenn einkasölunnar, sem ekki mega taka umboðslaun né þóknun. En þetta er svo einskorðað sem frekast getur verið við þetta eina fyrirtæki, og ekki hægt að dragat þá ályktun af því, að þetta gildi um starfsmenn annarat fyrirtækja. Það er því síður en svo ástæða til þess að samþ. þessa till., en aftur sterk rök fyrir því að samþ. frv. mitt, er ég hefi borið fram um þetta efni.