12.08.1931
Efri deild: 27. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

1484Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. 2. landsk. sagði, að engin ástæða væri til að ætla, að frv. hans um stöðu starfsmanna ríkisins myndi ekki ná fram að ganga, og vitnaði því til sönnunar m. a. í ummæli mín. Mér er það fullljóst, að það er engin hætta á því, að frv. nái ekki fram að ganga einhverntíma, en það verður bara ekki á þessu þingi.

Frv. þetta er ekki ennþá komið til 1. umr., en heyrzt hefir, að þingi muni verða slitið í næstu vikulok, svo að engar líkur eru á því, að það verði nú að lögum. Þótt frv. kunni að ná framgangi á næsta þingi, þá væri hin væntanlega tóbakseinkasala þegar tekin til starfa og búin að ráða til sín menn upp á ákveðna samninga, sem ekki væri tiltækilegt að rifta eða skerða réttindi þessara manna á nokkurn hátt frá því, sem þau voru, er þeir voru ráðnir til starfans, enda er ekki um það að ræða, að slík löggjöf sem þessi geti verkað aftur fyrir sig. Hv. þm. hefir því enga skýringu gefið á þeirri hegðan sinni, að þrákelknast við að setja þetta ákvæði inn í frv., og á meðan hlýt ég að líta svo á, að ummæli mín standi óhrakin.

Þá sagði hv. þm., að um umboð og umboðslaun myndi ekki verða mikið að ræða, ef einkasalan kæmist á, því að hún myndi setja verksmiðjunum stólinn fyrir dyrnar og segja: „Ef þið takið ekki umboðið af þeim mönnum, sem þið hafið veitt það, verzlum við ekki við ykkur“.

Ég hygg nú, að hv. þm. fullyrði þarna nokkru meira, en hann getur staðið við, því a. m. k. veit ég um, að ýmsir umboðsmenn fengu umboðslaun sín alla tíð meðan einkasalan gamla starfaði, og svo myndi eflaust fara enn.

Ennfremur vildi ég benda hv. þm. á það, að þótt tóbakseinkasalan kunni að verða voldug hér innanlands, þá býst ég ekki við, að hún geti svínbeygt erlend stórfyrirtæki, sem hafa meiri tekjur árlega en umsetning hennar nemur. Það er hreinn barnaskapur að láta sér detta slíkt í hug, því að vitanlega er þessum verzlunarhúsum trygging í því að hafa hér umboðsmann til að ota fram vörum þeirra og sjá um sölu á þeim, enda vinna þessir umboðsmenn að því á ýmsan hátt að útbreiða eina teg. annari frekar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða mál þetta frekar. Ég geri ráð fyrir, að það nái fram að ganga og það skipti ekki miklu, hvað um það verður.