22.08.1931
Sameinað þing: 6. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (1488)

14. mál, dýrtíðaruppbót

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 2. þm. Reykv. nefndi það dæmi, að talað væri í Alþt. fyrir árið 1930 um það, að dýrtíðaruppbótin væri „áætluð“ 40%, og sagði hann, að af því leiddi, að stj. hafi átt að greiða þetta, enda þótt dýrtíðaruppbótin hefði að réttu lagi ekki átt að vera nema 30%. Nú er þarna einmitt notað orðið „áætla“, og felst í því, að hér er um að ræða áætlunarupphæðir. Það kann að vera, að stj. hafi ætlað að fá heimild til að greiða hærri upphæð en fólst í 1., en þar sem hér er um áætlunarupphæðir að ræða, verður um þetta að fara eftir reglum launalaganna, ef ekki eru aðrar reglur settar um þetta efni. Sanna og þetta ýms ummæli frá undanförnum þingum. Í aths. við fjárlagafrv. fyrir árið 1926 segir svo (Alþt. 1925, bls. 36. A-deild):

„ — hefir ekki þótt varlegt að áætla uppbótina fyrir 1926 lægri en 60%“ o. s. frv.

Og í aths. stj. við fjárlagafrv. fyrir árið 1927 segir svo (Alþt. 1926, bls. 38, A-deild):

„Dýrtíðaruppbót á launum er áætluð 60%, eins og í fjárl. 1926“ o. s. frv.

Í nál. fjvn. Nd. um fjárlagafrv. fyrir árið 1927 segir og svo (Alþ. 1926, bls. 433, A-deild ):

„Með uppbótarprósentu þeirri, sem gert er ráð fyrir í frv., 60% , verður dýrtíðaruppbótin ca. 935000 kr. Ef uppbótarprósentan er 50% eða 40%, verður dýrtíðaruppbótin ca. 780000 kr. og 625000 kr. — Á mörgum öðrum gjaldliðum myndi einnig sparast“.

Svona mætti lengi lesa, en ég læt hér staðar numið. Er alveg ótvírætt, hvernig jafnan hefir verið litið á þetta mál — og mun ég ekki eyða fleiri orðum eða endurtekningum að því, þó aðrir haldi áfram að japla á því sama.