19.08.1931
Neðri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

18. mál, einkasala ríkisins á tóbaki og eldspýtum

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg það sama að segja um þetta mál og málið næst á undan (frv. um ríkisbókhald og endurskoðun), að það er alveg nýkomið til fjhn. og hún hefir ekki haft tíma til að ganga frá nál. enn. Við höfum haldið fund um þetta mál, og það var samþ. í n. með góðu samkomulagi að taka ekki ákvörðun í því fyrr en í fyrramálið. Þetta er alveg fastákveðið í n. En svo er málið tekið á dagskrá, án þess að n. sé einu sinni gert aðvart. Ég vil spyrja hæstv. forseta, hvað þetta eigi eiginlega að þýða. Ég veit ekki, til hvers er verið að vísa málum til n., þegar þeim er bersýnilega ekki ætlað að athuga þau. Það er sök sér, þó mál séu tekin á dagskrá áður en nál. kemur, þegar hægt er að segja, að n. hafi vanrækt sitt starf. En hér eru málin hvert eftir annað á dagskrá, þó hæstv. forseti viðurkenni, að n. hafi ekki gefizt nægur tími til að skila nál. Þetta eru svo hlægilegar vinnuaðferðir, að engu tali tekur, og ég hefi aldrei vitað n. eða einstaka nm. beitta slíkum aðferðum. Og ég segi fyrir mig, að mér dettur ekki í hug að halda áfram nefndarstörfum, þegar svona er farið að, enda kemur það af sjálfu sér, þegar n. fá ekki að segja sitt álit, og orðið er svo áliðið þings.